Kjósum Samfylkinguna

logo-sam.gifÉg hef skipt um skoðun varðandi þessar kosningar í borginni nokkrum sinnum. Ég er jú flokksbundinn í Samfylkingunni, en var þó á báðum áttum hvort ég vildi sjá Sjálfstæðismenn komast aftur til valda í borginni. Fannst stundum einsog ég væri kominn með nóg af R-listanum. Eða kannski var ég bara kominn með nóg af vælinu í Sjálfstæðismönnum útaf R-listanum, sem er uppspretta alls ills í heiminum samkvæmt þeim.

En þessi kosningabarátta hefur hins vegar sannfært mig algjörlega um eitt: Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Ástæðurnar eru nokkrar:

1. Reykjavíkurlistinn hefur gert Reykjavík að betri borg en hún var. Hann hefur ekki bara einbeitt sér að steinsteypu einsog nágrannasveitafélögin, heldur hefur tekið forystu um að efla Reykjavík sem menningarborg og bætt þjónustu við íbúana. Samfylkingin hefur verið kjölfestan í Reykjavíkurlistanum og hefur ekki skorast undan ábyrgð fyrir verk listans.
2. Samfylkingin hefur að mínu mati bestu stefnuna varðandi skipulagsmál. Helsta áhyggjuefni Íhaldsins er að gefa öllum jarðir, svo þeir geti byggt einbýlishús. Samfylkingin vill hins vegar uppbyggingu í Vatnsmýrinni, í slippnum og á fleiri svæðum þar sem verið er að þétta byggð. Eina leiðin til að bjarga Reykjavíkursvæðinu frá því að verða eitt allsherjar skipulagsslys er að þétta byggðina í kringum miðbæinn. Helsta framlag xD til skipulagsmála er að vita ekki hvort þeir ætli að fara með flugvöllinn og að vilja byggja mislæg gatnarmót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, sem eru glórulaus að mínu mati.
3. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að þykjast vera femínisti. En R-listinn hefur minnkað launamun kynjanna og hækkað laun þeirra lægstlaunuðu. Það eru framfaraskref, sem ólíklegt er að Sjálfstæðismenn hefðu tekið.
4. Dagur B. er að mínu mati besti kosturinn sem borgarstjóri Reykajvíkur. Vilhjálmur Þ. hefur verið lengi í borgarmálum og ég fæ það alltaf á tilfinniguna að honum finnist hann eiga stöðuna skilið, þar sem hann hafi unnið svo lengi að þessum málum. Að mínu mati þurfum við ungan og kröftugan borgarstjóra, sem vill sjá uppbyggingu í miðbænum, öflugra menningarlíf og betri þjónustu við þá hópa, sem þurfa á henni að halda. Dagur er einfaldlega frambærilegastur af þeim, sem eru í framboði. Mann, sem hefur sýn og vill gera Reykjavík að skemmtilegri og spennandi borg, en ekki bara endalausu samansulli af úthverfum.
5. Eina leiðin til að tryggja að Íhaldið komist ekki til valda er að kjósa Samfylkinguna. Þrátt fyrir að VG vilji eflaust helst vinna með Samfylkingunni, þá hafa þeir oft á tíðum talað ansi vel um Íhaldsmenn og virðast líta hýru augu til samstarfs með þeim. Draumur minn er að sjá vinstri stjórn með Samfylkingu sem kjölfestuna. Ef fólk kýs VG, þá á það á hættu að þeir vinni með Íhaldinu. Ef fólk kýs F eða B, þá getur það bókað að Íhaldið komist að með tilheyrandi ósköpum (fluvöllurinn áfram ef að F kemst að – og álver útí Örfirisey ef að framsókn kemst að)
6. Vilhjálmur Þ er kannski jafnaðarmaður, en með honum á lista eru hins vegar fjölmargir Frjálshyggjumenn, sem hafa skoðanir sem samræmast engan veginn þeirri bleiku auglýsingaherferð, sem Íhaldið hefur rekið. Einfaldasta leiðin til að forða því að þeir ráði er að kjósa Samfylkinguna.
7. Undir stjórn Íhaldsins og framsóknar hefur munur á milli ríkra og fátækra á Íslandi vaxið gríðarlega. Það er alger óþarfi að gefa Sjálfstæðismönnum völdin bæði í borginni og á landsvísu, nema að menn vilji að þessi munur aukist enn frekar. Undir stjórn R-listans hefur, einsog áður sagði, launamunur kynjanna lækkað og R-listinn hefur gert átak í að hækka laun þeirra lægslaunuðu umfram aðra.
8. Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að endurbæta Lækjartorg. Fyrir mann, sem átti einu sinni fyrirtæki við þetta torg, þá hljómar það frábærlega, enda það torg til skammar.

Ég er orðinn verulega spenntur fyrir kosningunum. Draumurinn er að sjá vinstri stjórn, en hann gæti þó breyst í algjöra martröð ef að Frjálslyndir komast að (flokksbrotin rata alltaf heim í Valhöll) og myndu vinna með Íhaldinu. Það myndi þýða að Íhaldsmenn réðu öllu og að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni og þétting byggðar í Reykjavík yrði þá nánast útilokuð.

Enn hef ég ekki heyrt neinn setja fram af hverju fólk ætti að kjósa Íhaldið aftur yfir sig. Til hvers að kjósa flokk, sem þykist vera Jafnaðarmannaflokkur rétt fyrir kosningar, þegar að það er hægt að kjósa sannnan jafnaðarmannaflokk, sjálfan Jafnaðarmannaflokk Íslands – Samfylkinguna. Ég hvet alla, sem búa í Reykjavík til að lesa áherslumál Samfylkingarinnar, sem komu í póstinum í gær. Vona að sem flestir sannfærist og kjósi áframhaldandi stjórn Jafnaðarmanna. Það er öllum Reykjavíkingum til hagsbóta.

xS