Fáar og lélegar færslur

Ég hef að undanförnu verið í talsverðum efa um innihald og framhald á þessari ágætu bloggsíðu. Þeir, sem hafa fylgst með henni í langan tíma, hljóta að hafa tekið eftir því að færslum á þessari síðu hefur fækkað og innihaldið rýrnað. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

– Ég hef haldið þessari síðu út í rúmlega 6 ár. Hún hefur fylgt mér í gegnum góða og slæma hluti í mínu einkalífi. Bæði þegar ég hef verið á föstu og lausu og í þeim tilfellum þegar ég hef verið hamingjusamur eða ekki. Það sem hefur hins vegar einkennt skrif mín er að ég hef skrifað meira þegar ég er óhamingjusamur og þegar ég er á lausu. Sumir hafa eflaust fengið þá hugmynd að ég væri alltaf á lausu og alltaf eitthvað fúll útí heiminn. Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef ávallt minnkað skrifin þegar ég hef verið á föstu eða þegar mér hefur liðið vel, bæði vegna þess að þá leita ég minna á netið og vegna þess að mér þykir óþægilegt að skrifa um líf mitt þegar önnur manneskja er svo nátengd því.

Það er nefnilega ekkert mál að skrifa um persónulega hluti þegar þeir varða að mestu leyti mig sjálfan. Hins vegar þegar ég er á föstu, þá er önnur manneskja ávallt tengd þeim skrifum og það gerir það að verkum að ég er ekki eins tilbúinn að opna mitt einkalíf.

– Varðandi pólitísk og önnur almenn skrif á þessa síðu þá lendi ég sífellt oftar í því að ritskoða sjálfan mig. Aðalástæðan fyrir því er að ég á veitingastað og það er alltaf möguleiki á því að ákveðin skrif komi illa við ákveðinn hóp viðskiptavina.

Ég hef skrifað eitthvað af pistlum um íslenska pólitík eða dægurmál, en þeir eru talsvert mildari heldur en skrif mín voru áður. Ég er alltaf hræddur um að pirra einhverja eða skemma að einhverju leyti fyrir rekstrinum mínum. Þetta veldur því að ég sleppi því að gera grín að sjónvarpsþáttum á Sirkus eða framsóknarmönnum eða jeppaeigendum (ó, hvað mig langar að skrifa um samtök pallbílaeigenda, sem kvarta undan álagningu í Hvalfjarðargöngunum) því ég veit að hlutar af þessu fólki eru núverandi eða væntanlegir kúnnar á veitingastaðnum mínum. Það er því spurning hvort það borgi sig fyrir mig að hella úr skálum reiði minnar á netinu þegar það kann að hafa slæm áhrif á reksturinn.

Kannski eru þetta ranghugmyndir hjá mér. Kannski ekki. En þetta eru allavegana ástæður fyrir skorti á góðum færslum hérna að undanförnu.

– Mér finnst líka á stundum einsog þessi síða sé að koma í stað venjulegra samskipta við vini mína og vandamenn. Ein vinkona mín, sem býr erlendis, sagðist ekki vilja setja upp bloggsíðu þar sem að hún væri hrædd um að fá ekki tölvupósta frá vinum sínum. Ég held að margir hafi treyst á að fá fréttir af mínu lífi í gegnum þessa síðu í stað þess að hringja eða senda mér tölvupóst. Og að vissu leyti hef ég gert ráð fyrir því að það sé að gerast, svo að ég hef ósjálfrátt minnkað samskiptin. Það er ekki gott. Og því vil ég breyta.

En allavegana núna þegar ég er að hætta í 9-5 vinnunni minni, þá er ég að undirbúa langt ferðalag. Ferðasagan úr því ferðalagi ætti væntanlega að lífga uppá þessa síðu.