Ferðapælingar

Þar, sem ég hef ekkert til að skrifa um þá ætla ég aðeins að fjalla um ferðaplönin mín.

Ég hef verið að hugsa þessa 2 mánaða ferð, sem ég ætla að fara í ágúst. Ég er ekki búinn að ákveða neitt og ég hef skipt um skoðun sirka 100 sinnum núna í veikindunum. Fyrsta hugmyndin var að fara til Suðaustur-Asíu, en af einhverjum ástæðum hefur spenna mín fyrir þeirri hugmynd minnkað.

Hugmyndin núna er að fara til Suður-Asíu, með fókus á Indland. Ég er að láta mér detta í hug að fljúga til Delhí eða Mumbay ([þetta eru svo sannarlega ekki skemmtilegar fréttir þaðan](http://news.bbc.co.uk/2/hi/south_asia/5169332.stm)) og ferðast um norðanvert Indland. Fara þaðan inní Nepal, upp til Kathmandu. Frá Kathmandu taka pakkaferð upp til Lhasa í Nepal og að grunnbúðum Mt. Everest (það er víst betra útsýnid Tíbet megin) og svo tilbaka til Nepal.

Frá Nepal fara svo aftur inní Indland (hugsanlega til Bútan ef það er mögulegt) og yfir til Bangladess. Þaðan svo til Calcutta og aftur heim.

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þetta sé sniðugt plan. Veit t.a.m. alltof lítið um Indland til að geta myndað mér skoðanir um það land og hvað ég á að sjá þar. En miðað við að taka bara Norður-Indland, þá sýnist mér einsog tíminn ætti ekki að vera stórt vandamál. Ætti að geta náð nokkrum stórkostlegum hlutum einsog Lhasa, Khatmandu dalnum, Mt. Everest, Taj Mahal og fleiri stöðum.