Kertafleyting gegn Ísrael

Jens skrifar um kertafleytinguna og minnist akkúrat á það, sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki mætt á þann atburð í nokkur ár:

Það var hins vegar fremur pirrandi að hlusta á ræðumann gærkvöldsins blóta Ísrael í sand og ösku á meðan hún fann fjölda sögulegra réttlætinga fyrir aðgerðum Hizboullah.

Ég held að ég hafi þolað allavegana tvær kertafleytingar þar sem undirstaða aðalræðunnar var að Ísraelsríki væri orsök alls ills í heiminum og að Palestínumenn hefðu á einhvern hátt unnið sér rétt til að sprengja sjálfa sig í loft upp í strætóum í Ísrael. Eftir seinna skiptið þá gafst ég upp á því að mæta. Leið einsog ég ætti ekkert sérstakt erindi þarna víst ég er þeirra trúar að Gyðingar séu ekki uppspretta allra vandamála í Mið-Austurlöndum.

Slíkar ræður má fyrir mér halda á atburðum til stuðnings Palestínumönnum, en þeim á að halda frá atburðum þar sem hvatt er til friðar í heiminum. Það er jú enginn sérstakur skortur á and-Ísraels áróðri á Íslandi sem stendur.

Eða einsog Jens segir:

ef þú ert sannur friðarsinni þá er andstyggð þín á stríði aldrei hlutdræg. Ég hef jafn mikla andstyggð á glæpum Hizboullah og Ísrael. Morð á saklausum borgurum er alltaf morð á saklausum borgurum. Friðarsamkomur sem þessar eiga að fordæma dráp beggja stríðsaðila en ekki lýsa skilning á aðgerðum annars aðilans á meðan hinn er fordæmdur.

Skipuleggjendur kertafleytingarinnar mættu hafa þetta í huga.

For the record – mín skoðun: 1 – Hizbullah réðst á Ísrael 2 – Ísrael hefur rétt á að verja land sitt hvort sem það er fyrir hryðjuverkamönnum eða herjum annarra landa 3 – viðbrögð Ísraela eru úr öllum takti við alvarleika byrjunnar átakanna.