Change of plans

beach-th.jpgÞegar ég byrjaði að skipuleggja fríið mitt fyrir nokkrum mánuðum var ég í góðu sambandi með stelpu, sem ég trúði að myndi endast. Þrátt fyrir að vera í sambandi var ég samt ákveðinn í að ferðast einn því að kærastan mín gat ekki komist með vegna skóla.

Þegar ég byrjaði að skipuleggja þetta allt, þá fannst mér það hljóma rosalega vel að fara til Indlands og Nepal. Fara í langar gönguferðir uppað grunnbúðum Everest, fara til múslimalanda einsog Bangladesh (enginn bjór) og fleira slíkt.

En núna þegar ég er ekki lengur í sambandi, þá breytast hlutirnir. Ég fann eftir að sambandið endaði að ég var ekkert sérstaklega spenntur fyrir ferðinni. Og þess vegna ákvað ég eitt kvöldið að breyta algerlega um stefnu. Fékk smá ráðleggingar frá stelpu sem hefur ferðast um svæðin og ákvað að breyta. Því er ég núna að fara í tveggja mánaða ferðalag um…

Suð-Austur Asíu

Þetta er auðvitað AÐAL bakpokaferðalags-staðurinn, fullur af Evrópubúum, Könum og Áströlum með Lonely Planet bækur á lofti. Og af einhverjum ástæðum, þá þykir mér það alveg æðislega heillandi þessa stundina.

Ég hugsaði til síðasta ferðalags og hvenær mér leið best þá. Ég held að það hafi verið á Roatan í Hondúras. Þar kynntist ég fulltaf skemmtilegu fólki (og kærustu reyndar líka), slappaði af í strandbæ, lærði að kafa og djammaði svo á ströndinni á kvöldin. Það var æði og ég held að það séu varla til betri staðir en eyjarnar í kringum Tæland til að upplifa eitthvað svipað.

Þannig að planið er eitthvað á þessa leið: Fljúga til Bangkok og skoða mig um þar. Fara svo til Kambódíu (Pnom Penh, strandbæir og Angkor Wat) og fikra mig svo frá Suður-Víetnam alla leið upp til Hanoi, þaðan sem ég myndi taka flug til Bangkok. Þessi partur á að taka um mánuð.

Svo er planið að eyða seinni mánuðinum á Tælandi. Skoða landið, heimsækja fullt af eyjum, kafa, djamma og skoða lífið. Ef ég hef einhvern tíma gæti ég svo kannski kíkt líka yfir til Malasíu. En ég ætla ekki að plana þetta of mikið, heldur hafa bara mjög rúman tíma. Held að tveir mánuðir fyrir 3 lönd séu ágætis tími og að ég ætti að geta séð fulltaf hlutum.

Ég er orðinn alveg hrikalega spenntur!!!