Hryllileg djammtónlist

Ég fór á djammið í gær. Skemmti mér virkilega vel, *þrátt* fyrir gæði íslenskra skemmtistaða. Ég veit að ég er búinn að pirra mig á þessu oft áður, en ég bara verð. Kvöldið niðrí miðbæ hófst á Hressó þar sem ég stoppaði í tvær mínútur. Þar var hljómsveit að spila og einhver fullur gamall karl í jakkafötum að tapa sér fyrir framan hana með hálf einkennilegum danssporum. Ég ákvað að þetta væri ekki málið.

Fór því með mínum hóp upp Laugaveginn þar sem við enduðum inná Sólon. Þar var fínt. DJ-inn spilaði m.a. Barfly, sem er náttúrulega lag ársins og ótrúlega skemmtilegt lag til að hlusta á á djamminu. En aðrir aðilar úr hópnum höfðu farið á Óliver og ákváðum við því að hittast þar. Okkur var hleypt framfyrir röð og eftir stutta stund vorum við komin á dansgólfið.

Hvar á ég að byrja?

Í fyrsta lagi var ég ekki búinn að vera lengi á dansgólfinu þegar ég var skallaður af einhverjum haug. Samkvæmt þeim, sem voru að dansa með mér þá var gaurinn laminn svo fast í hausinn að hausinn hans skallaði ennið á mér. Það þótti mér ekki góð byrjun.

Svo kom eitthvað lag, sem ég fílaði og ég reyndi að dansa með hópnum. Það gekk alveg fáránlega illa vegna þess að það voru svona 300 manns á þessu örsmáa dansgófli. Ég sá í raun ekki um danshreyfingarnar, heldur réðust þær af fólkinu, sem rakst í mig úr öllum áttum. Sem hefði verið í lagi ef…

… DJ-inn hefði ekki fengið einhverja skringilega löngun til að spila asnaleg lög. Eftir 2-3 sæmilega heilbrigð lög, sem hægt var að dansa við, þá byrjaði hann á íslenskri syrpu, sem byrjaði á Fjólublátt ljós við barinn (er það ekki með Helgu Möller). Ég snarstoppaði, en sá að einhver sæt stelpa uppá sviði söng af innlifun við lagið. Ég hugsaði með mér að hún hlyti að vera eldri en hún sýndist. Þegar þetta “skemmtilega” lag var búið tók svo við “Diskó Friskó”. Það virðist vera óskráð regla að það lag sé spilað hvert einasta kvöld inná þessum stað.

Þegar Diskó Friskó byrjaði ákvað ég að nóg væri komið og hvatti fólk til að skipta um stað. Við ákváðum að fara á næsta stað, sem er Barinn. Fórum þar strax uppá næstu hæð þar sem ég fór með einum strák á barinn. Stökk síðan uppá klósett og ætlaði svo niður á aðra hæð til að dansa. En, þegar ég var á leiðinni niður heyrði ég að DJ-inn var að spila…

…**SÚPERMANN MEÐ LADDA**!! Í fokking alvöru talað, af hverju er þetta lag spilað á skemmtistað fyrir fullorðið fólk? Getur einhver sagt mér það? Það getur enginn heilvita einstaklingur fílað það að dansa við þetta. Einu aðstæðurnar, sem ég get ímyndað mér að fólk fíli þetta er þegar það er gjörsamlega ofurölvi og finnst æðislega sniðugt og flippað að vera að dansa við Súpermannn. Ég var hins vegar ekki ofurölvi, heldur bara temmilegur þannig að ég neitaði að dansa.

Næsta lag var eitthvað Michael Jackson lag, þannig að ég fór á dansgólfið. Ég þarf nefnilega actually að hafa tónlist til að dansa við. En þetta stóð ekki lengi yfir, því næsta lag á eftir Jackson var…

…**HIPP-HOPP HALLI**! Ég ákvað að fara út.

Fórum næst á Vegamót, sem var hápunktur kvöldsins. Sá staður virðist leggja metnað í að hafa almennilega tónlist, en ekki vera með eitthvað leiðinda flipp eða sniðugheit einsog aðrir staðir. Fengum strax borð við innganginn og skemmtum okkur vel þar. En málið með Vegamót er náttúrulega einsog alþjóð veit að þar er minnsta dansgólf norðan Alpafjalla.

Ólíver og Barinn geta alveg verið fínir staðir. En þá verða menn bara að skilja að það er ekki fyndið né skemmtilegt að spila Súpermann eða Hipp-Hopp Halla. Það er einfaldlega leiðinlegt, fælir fólk af dansgólfinu (einsog gerðist greinliega á Barnum) og eina fólkið, sem fílar þetta er svo ofurölvi að það myndi finnast það æðislega sniðugt að hlusta á “Ég sá mömmu kyssa jólasvein” á dansgólfinu.

En jæja, um næstu helgi er ég að fara í brúðkaup (treysti því að þar verði spiluð betri tónist) og svo eftir tvær vikur stefni ég á að djamma í Bangkok. Býst svosem ekki við góðri tónlist á því djammi, en ég mun vonandi sleppa við að hlusta á Súpermann.