Suð-Austur Asíuferð 16: Ert þetta þú, Bangkok?

Ég er kominn aftur til Bangkok. 8 vikum eftir að þessi blessaða ferð hófst, [8 vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/16/11.33.23/) eftir að ég flaug frá London til Bangkok og tékkaði mig inná gistiheimili á Khao San Road í Bangkok. Ég er kominn aftur og borgin er gjörbreytt.

Reyndar er margt eins. Tælendingar eru enn í gulu til að fagna kónginum, það hefur ekkert breyst þrátt fyrir nýja ríkisstjórn. En borgin er svo gjörólík þeirri borg, sem ég heimsótti fyrir 8 vikum að það er eiginlega ekki fyndið. Munurinn stafar af því að síðast var ég á Khao San Road, sem er bakpokaferðalangastaður í gamla hluta borgarinnar, nálægt öllum gömlu hofunum. Núna er ég hins vegar á Siam Square, sem er hin nýja Bangkok, líkist meira Tokyo (af þeim myndum, sem ég hef séð) en gömlu Bangkok. Hérna er allt fullt af flottum verslunum, sætum stelpum með fulltaf innkaupapokum og ógrynni af bandarískum skyndibitakeðjum, sem gera sitt besta til að láta Tælendinga verða feita eftir hundruðir ára þar sem þeir hafa verið grannir á sínu eigin fæði (þessu til sönnunar má benda á að KFC býður hérna uppá franskar kartöflur, sem maður dýfir fyrst í ostasósu og svo oní kryddaðar og sykraðar rice krispies flögur!!!).

Ég verð þó að viðurkenna veikleika minn fyrir vestrænum þægindum. Eftir að hafa eytt 8 vikum í löndum þar enginn McDonald’s (gasp!) er og lítið um loftkælingu og slíkt dúllerí, þá finnst mér æðislegt að koma aftur í skyndibitamenningu, loftkældar verslanamiðstöðvar og loftkæld bíóhús. Vesturlandabúinn í mér sprettur upp við þessi tilefni. Ég elska að ferðast um framandi staði, en það er líka alltaf gott að setjast inná veitingastað, sem maður þekkir, í loftkældu um hverfi og borða hamborgara.

Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að komast hingað inní miðja Bangkok. Flugið frá Luang Prabang í Laos var fínt, en á leið minni inní Bangkok lenti ég hjá leiðinlegasta, feitasta, ljótasta, heimskasta og óheiðarlegasta leigubílstjóra Í HEIMI! Ég vil meina að það þurfi mikið til að æsa mig upp, en mikið afskaplega átti þetta fífl auðvelt með það. Hann keyrði mig um hálfa borgina, reyndi að fara með mig á 5 hótel, sem hann var að prómótera (þrátt fyrir að ég hefði sagt í upphafi að ég vildi ekkert neitt sölukjaftæði – þar sem ég er búinn að kynnast leigubílstjórum í Bangkok) og á endanum hafði hann svo enga hugmynd um hvar hótelið mitt var og neitaði að keyra lengra. Ég var orðinn svo reiður að ég var næstum því byrjaður að öskra á hann, en á endanum rauk ég útúr taxanum og kastaði peningnum í götuna og labbaði svo burt. Tókst svo eftir um hálftíma labb að finna hótelið mitt.

Eftir sturtu var ég orðinn hress og fór því og fékk mér að borða á …wait for it… wait for it… McDonald’s. Skoðaði mig um í verslanarmiðstöð, fór í enska bókabúð þar sem ég keypti mér nýjar bækur og skellti mér svo í bíó. Og ég vil skjalfesta það hér og nú að [The Departed](http://www.metacritic.com/film/titles/departed) er besta fokking mynd, sem ég hef séð í marga, marga, marga mánuði. Þvílík og önnur eins gargandi snilld! Ég var í losti heillengi eftir að ég labbaði útúr bíóinu. Hluti af því var að það var 15 gráðu frost í bíóinu og ég í stuttbuxum og sandölum, en stærsti parturinn var hversu mögnuð myndin er. Vá! Hlaupið útí bíó ef hún er komin til Íslands!

Síðustu dagarnir í Luang Prabang voru rólegir. Ég skoðaði restina af því, sem var að skoða þar og fór svo á laoskt matreiðslunámskeið með 2 miðaldra hjónum frá Bandaríkjunum. Það var alveg ljómandi skemmtilegt, við elduðum 5 rétti, sem voru hver öðrum skrýtnari og fylgdumst með kokki elda eitthvað fleira. Mjög skemmtilegt.

Ég ætla að eyða morgundeginum í Bangkok í að versla. Ég valdi hótel með tilliti til þess að vera nálægt helstu verslunargötunum í borginni. Svo á ég seint annað kvöld flug til Dubai og þaðan til London. Ég á að fara í loftið klukkan 2 um nóttina og lenda í London klukkan 7, þar sem ég græði heila 7 klukkutíma í tímamismun. Í London hef ég svo einn og hálfan dag og á svo flug heim á fimmtudagskvöld.

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 22:04*