Leiðinlegustu fréttir ársins

Jæja, er ekki voðalega vinsælt að hafa svona topplista fyrir árið. Þetta voru að mínu mati leiðinlegustu fréttir ársins 2006:

1. **Baugsmálið**: Enn eitt árið er þetta leiðinlegasta fréttaefnið. Þetta mál náði að vera pínku spennó þegar öll þessi persónulegu email komu upp. En á þessu ári hafa fréttir um Baugsmálið verið 100% leiðindi. Hver er hæfur, hver er vanhæfur, who gives a fuck? Geta menn ekki bara klárað þetta mál? Það hefur enginn gaman af þessu, ekki Baugsmenn, ekki ríkið og svo sannarlega ekki við hin.
2. **Allar fréttir um íslenska fjölmiðla**. Þá *sérstaklega* fréttir um RÚV frumvarpið.
3. **Fréttir um launamál flugumferðarstjóra**. Getur ekki einhver fréttamaður tékkað á því hvort ríkið sé að brjóta á flugumferðarstjórum? Ef svo er, þá má gagnrýna ríkið. En ég nenni ekki að hlusta á 20 fréttir þar sem ríkið segir eitt og þessir flugumferðarstjórar annað. Af hverju geta fréttamenn ekki bara kannað málið í stað þess að spyrja bara þá sem deila? Fyrir flughræddan mann einsog mig, þá vil ég ekki vita til að þessir menn séu í fýlu.
4. **Fréttir af milliuppgjöri fyrirtækja**. Hvergi annars staðar í heiminum er milliuppgjörum fyrirtækja slegið upp sem fyrstu fréttum á vefútgáfum dagblaða með öðrum almennum fréttum.
5. **Fréttir af matsfyrirtækjum**. Ég leyfi mér að fullyrða að langflest fólk hefur ekki hugmynd um hvað þessi matsfyrirtæki eru að bralla. Segið mér hvaða áhrif þetta hefur á bankabókina mína og þá get ég kannski gert mér upp áhuga. Og ég er hagfræðingur!
6. **Allar fréttir sem fela í sér viðtöl við börn**. Meðal annars fréttir um að nú séu að koma jól, hvítasunna, páskar, sumar og 17.júní. Einnig fréttir með viðtölum við jólasveina.

Ég er ábyggilega að gleyma einhverju. Einhverjar hugmyndir?