Fjölskyldur í ófjölskylduvænum hverfum?

(þetta birtist fyrr í dag á bloggi [Nýkrata](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/entry/98179/) þar sem ég skrifa)

Það er alveg þess virði að vísa á leiðara Jóns Kalddal í Fréttablaðinu í dag, sem fjallar um einstaklega furðulega herferð borgarstjóra Reykjavíkur, sama gamla Villa, gegn spilakassasal í Mjóddinni.

Nú þarf það svo sem ekkert að koma manni á óvart að Sjálfstæðismenn vilji hafa vit fyrir þegnum þessa lands, en það sem er einkennilegra er það hvernig Vilhjálmur skiptir höfuðborginni uppí “fjölskylduvæn” svæði og önnur svæði, sem eru þá væntanlega “ófjölskylduvæn”. Jón Kaldal talar um opnun spilakassasalarins:

>Meginrök borgarstjóra gegn því framtaki eru að borgaryfirvöld vilji ekki starfsemi slíkra “ógæfukassa” í fjölskylduvænum hverfum.

>Af því tilefni er rétt að spyrja hvort Vilhjálmur viti ekki að nú þegar eru reknir salir með spilakössum víða um borgina, og það í hverfum sem hingað til hafa ekki talist fjandsamlegri fjölskyldum en önnur hverfi? Ef sú er raunin, þá má borgarstjóri taka hinn nýja og að því er virðist röggsama lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, sér til fyrirmyndar og fá sér göngutúr um borgina sína.

Nú bý ég nálægt miðbæ Reykjavíkur, þar sem rekinn er spilasalur. Það finnst Vilhjálmi allt í lagi, þar sem mitt svæði er sennilega ekki “fjölskylduvænt” í hans huga. Það finnst mér magnað þar sem að ég er alltaf að sjá lítil börn á leikskólanum við hliðiná blokkinni minni og á æfingasvæði KR, sem er ekki langt frá mér.

Borgarstjóri segir um þetta

>Ég sannreyndi að til að banna spilakassa í söluturnum þarf að grafa mjög djúpt lögfræðilega en mun hins vegar fara yfir þessi mál heildstætt með eigendum spilakassanna og reyna að ná sátt um að þeir séu ekki settir upp í fjölskylduvænum fjölskyldukjörnum

Þessi spilasalur í Mjóddinni er fullkomlega löglegur og það er einfaldlega hræsni af borgarstjóra að vilja ekki svona “óæskilega”, en fullkomlega löglega starfsemi í sínu heimahverfi bara vegna þess að hann skilgreini sitt hverfi sem “fjölskylduvænt”.

Borgarstjóri þarf líka að svara fyrir það hvernig hann skilgreini ófjölskylduvæn hverfi. Eru fjölskyldyrnar sem þar búa í minni metum hjá borgarstjóra og eiga þær fjölskyldur að sætta sig við að hvers konar starfsemi sé þar rekinn á meðan borgarstjóri haldi verndarskildi yfir þær fjölskyldur sem búi í “fjölskylduvænu” hverfunum? Það væri gaman að heyra.