Sófinn minn

Þessi helgi er búin að vera einstaklega skemmtileg. Ég er löngu hættur að halda þessu bloggi út sem einhvers konar dagbók, en ætla að breyta útaf vananum núna.

Málið er að þegar ég var á ferðalagi í Asíu þá skráði ég mig á síðunni [Couchsurfing](http://www.couchsurfing.com/) (prófíll [hér](http://www.couchsurfing.com/profile.html?id=1HBE9H0)). Sú síða gengur útá það að fólk alls staðar í heiminum býður fram sófa í íbúðum sínum til þess að ferðalangar geti sofið þar í nokkra daga. Ég var nokkuð spenntur fyrir hugmyndinni og ætlaði að nýta mér hana á ferðalagi mínu um Asíu, en af einhverjum ástæðum gugnaði ég alltaf á því að biðja um gistingu.

Prófíllinn minn var samt enn þarna inni og fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá ástralskri stelpu sem spurði hvort hún mætti gista hjá mér eina helgi. Ég sá fram á að vera laus þessa helgi og því bauð ég henni gistinguna. Allavegana, þá var þessi helgi semsagt nýliðin helgi. Stelpan, sem er 24 ára Ástrali kom því á föstudaginn til mín. Við borðuðum saman á föstudagskvöld og hún var áhorfandi þegar ég var í salsa tíma það kvöld. Eftir tímann fórum við svo ásamt dansfélaga mínum á smá barhopp, milli Vegamóta, Barsins og Sólon.

Á laugardaginn hafði vinur vina hennar boðist til að fara með hana útúr bænum, þannig að ég var laus í það að horfa á fótbolta og fara í fjölskylduboð. Um kvöldið var ég svo með matarboð fyrir matarklúbbinn sem ég er í. Það telst alltaf til meiriháttar frétta þegar að gestir í þeim matarklúbbi eru 8 talsins, en aðeins einu sinni á starfstíma klúbbsins hef ég verið nógu lengi með stelpu til þess að bjóða henni með mér. Nú á laugardaginn fékk Brianna að koma með og því náði klúbburinn 8 meðlimum í annað skipti.

Ég eldaði arroz con pollo á perúska vísu, sem var uppáhaldsmaturinn minn í Venezuela (en þar bjó ég með perúskri fjölskyldu). Rétturinn heppnaðist ekki alveg nógu vel, sérstaklega vegna alvarlegs salt-skorts. En boðið var skemmtilegt. Eftir það ákvað ég að fara með stelpunni í partý, sem mér hafði verið boðið í, en þegar við vorum komin í partýið voru allir farnir í bæinn.

Þannig að við drifum okkur niður í bæ. Fyrst á Vegamót þar sem lítil stemning var, svo á Barinn, 11, Ólíver, Rex (jesús!) og enduðum svo aftur á Vegamótum, sem einfaldlega ber af skemmtistöðum í þessari borg. Þar dönsuðum við svo til klukkan 5 þegar að við röltum heim í góða veðrinu.

Í gær fór svo stelpan með góðri vinkonu minni á listasöfn í borginni og svo fórum við saman í Bláa Lónið. Enduðum svo með því að kíkja í bíó á Dreamgirls. Sú mynd er afleit. AFLEIT! Hefði einhver bara drullast til að segja mér að þetta væri dans- og söngvamynd, þá hefði ég getað eytt þessum 150 mínútum á skynsamari hátt.

En niðurstaðan af þessari fyrstu CouchSurfing reynslu minni er semsagt afskaplega góð. Mikið fer auðvitað eftir því hversu skemmtilegur ferðalangurinn er, og hversu mikinn tíma maður getur gefið sér í þetta. En þessi helgi var allavegana frábær og ég get vel hugsað mér að gera þetta aftur. Ef ég fer aftur á langt ferðalag einn, þá mun ég pottþétt nýta mér þennan möguleika þegar að kemur að gistingu. Þetta er frábær leið til að kynnast fólki á ókunnugum stöðum.