Klámhystería

Hvað þýðir það að fólki sé meinuð gisting á Hótel Sögu? Er ég einn um að finnast það viðbjóðslegt að slíkt skuli gerast á landi sem á að teljast frjálst?

Hversu langt ætlum við að ganga? Haldiði ekki að fyrrverandi eyturlyfjasalar hafi gist á Hótel Sögu? Menn sem hafa lamið konurnar sínar hafa gist á Hótel Sögu, sem og aðrir ofbeldismenn. En hingað til hefur enginn spurt væntanlega gesti um sakavottorð, enda erum við komin ansi langt þegar að hótel er farið að taka að sér að refsa fyrir hegðun sem því er á móti skapi. Ætla femínistar að mótmæla því næst þegar að dæmdur glæpamaður reynir að fá gistingu á tjaldstæði á Íslandi?

Við erum með refsikerfi, sem á að sjá um að refsa fólki fyrir ólöglega hegðun. En hótel, flugfélög eða veitingastaðir eiga ekki að standa í að refsa fólki fyrir sína iðju. Þetta er virkilega ósmekklegt og þegar að hysterían deyr niður þá munu eflaust margir átta sig á því hversu langt menn hafa gengið í vitleysunni.

Vegna þess að femínistum finnst felast kvenfyrirlitning í sumu klámi, þá hafa þær (þau) ákveðið að reyna með öllum ráðum að gera alla klámframleiðslu tortryggilega og engu nær en að þau haldi að öll framleiðsla á klámi sé unnin með 12 ára gömlum pólskum þrælum. Það er í góðu lagi að mótmæla klámi með því að í því felist kvenfyrirlitning (sem er vissulega rétt í ansi mörgum tilfellum), en það er ekki í lagi að gera öllum framleiðendum þess efnis upp þær sakir að þeir stundi mansal og barnaníðingar.

Þetta snýst ekki um að vera með eða á móti klámi, heldur það að vera með eða á móti frelsi. Það hefur ekki verið sannað á þetta fólk að það stundi mansal eða barnaníðingar, enda eru þær iðjur bannaðar í heimalandi fólksins. Þess vegna getum við ekki tekið að okkur að dæma fólkið fyrir þær sakir **án allra sönnunargagna**. Ef að stærsta sök þessa fólks er að framleiða efni uppfullt kvenfyrirlitningu þá má mótmæla efnistökum, en ekki meina því að koma til landsins eða um gistingu.

Svo þorir enginn að standa uppi og verja frelsi þessa fólks til að koma, nema eiga það á hættu að vera merktir sem einhverjir klámsjúkir perrar (einsog ég hef ítrekað lesið á bloggsíðum), sem er álíka ómálefnalegt og ómerkilegt og að kalla alla femínista ljóta og kynlífsskerta.

Ég sé að eini flokkurinn sem talar gegn þessari hysteríu eru ungliðar í Sjálfstæðisflokknum. Það er spurning hvort ég eigi meiri samleið með þeim flokki en þeim sem ég er skráður í núna.

Annars bendi ég á [þetta](http://mengella.blogspot.com/2007/02/sweet-home.html) og [þetta](http://blog.kristjanatli.com/2007/02/22/personufrelsi).