Blogg?

Þegar ég renni yfir síðustu færslur á þessari síðu þá er ekki laust við að ég skammist mín fyrir leiðindin sem ég hef verið að skrifa hérna inn að undanförnu. Af ýmsum ástæðum hafa fáar áhugaverðar færslur verið settar hingað inn. Jú, ég hef verið í útlöndum, hef verið að deita (sem dregur alltaf úr fjölda athyglsiverðra pistla) og svo var ég erlendis í einhverja daga.

En það koma einfaldlega svona tímabil á þessari síðu þar sem ég hef ekkert spennandi fram að færa. Ef ég væri Moggabloggari, þá myndi ég leysa málið með því að skrifa einnar setningu færslur um svona 10 mismunandi fréttir, eða þræta yfir klámi. En vandamálið er bara að ég hef mjög lág þolmörk þegar kemur að svona þrætum. Það er sennilega ástæðan fyrir því að stjórnmálastarf hefur aldrei heillað mig neitt alltof mikið þrátt fyrir brennandi áhuga á stjórnmálum.

Ég verð fljótt þreyttur á þessum eilífu þrætum. Þegar ég les bloggsíður og þá sérstaklega á Moggablogginu þá virðist mér fólk hafa ódrepandi áhuga á að ræða sama málefnið aftur og aftur og aftur. Til að mynda þá gaus uppí mér einhver réttmæt reiði í tengslum við þessa klámráðstefnu hysteríu, en svo missti ég allan áhuga á málefninu. Á meðan ég missti áhugann virðist fólk endalaust geta þrætt um þetta fram og tilbaka.

Einhvern veginn finnst mér líka mitt einkalíf heldur ekki vera efni í margar færslur hérna á þessari síðu. Þegar ég var kannski eitthvað niðri og skorti sjálfstraust og sjálfsálit, þá fannst mér þessi síða vera góður vettvangur til að tjá mig um hlutina og fá í gegnum hana einhvern skrýtinn stuðning sem að hjálpaði mér.

En í dag líður mér bara helvíti vel. Ég er fullur af sjálfstrausti og mér finnst vera eitthvað point í því sem ég er að gera. Í stað þess að vinna vinnuna mína fyrir hvern dag, þá finnst mér ég núna eftir að ég hætti í gömlu vinnunni, ég vera actually að vinna **í áttina** að einhverju sem getur gefið mér einhverja gleði eða lífsfyllingu. Ég veit ekki hvort það verður raunin, en þannig líður mér samt.

Ég verð æ oftar minntur á það að ég er sennilega fyrst og fremst þekktur utan míns vinahóps fyrir að vera bloggari. Það finnst mér afskaplega furðulegt, en æ oftar rek ég mig á það hversu víðlesin þessi síða er. Nú er það svo að ég fylgist ekki með teljaranum á síðunni, þar sem það segir mér voðalega lítið hvort að heimsóknirnar á þessa síðu sé orðnar 6 eða 700 þúsund. En í mínu lífi rekst ég oftar á það að fólk gerir sér upp ákveðnar hugmyndir um mig út frá síðunni minni.

Ég lendi nánast í hvert einasta skipti sem ég fer útað djamma í því að einhver stelpa komi uppað mér og segist lesa bloggið mitt. Mér finnst það í raun æðislegt og ég verð dálítið upp með mér við að heyra það. En það fær mann líka til að velta því fyrir sér hvers konar ímynd fólk fær af mér við lesturinn. Þegar ég hitti fólk við slíkar astæður finnst mér líka oft óþægilegt hversu upplýsingunum er misskipt. Ég veit ekkert um viðkomandi, en hann/hún hefur aðgang að hundruðum mynda af mér, veit hvert ég hef ferðast og svo framvegis. Einnig er svo hætta á því að sögurnar sem ég segi verði lítið spennandi vegna þess að viðkomandi hafi lesið þær áður á blogginu mínu.

Allt þetta hefur gert það að verkum að þetta blogg hefur smám saman orðið litlausara, umræðan verður æ minna beitt og ég þori ekki að segja fulltaf hlutum. Ég þori oft ekki að setja stjórnmálaskoðanir mínar fram á eins beittan hátt og mig langar, einfaldlega vegna þess að ég gæti skaðað fyrirtækið mitt á einhvern hátt. Og ég vil oft ekki að tjá mig um mitt einkalíf af ýmsum ástæðum.

Ein ástæðan er sú að fólk fær oft ranga ímynd af mínu lífi við blogglesturinn. Einn vinur minn spurði mig fyrir stuttu af hverju ég hefði ekki átt í neinum sanböndum við stelpur að undanförnu? Ég tjáði honum að ég hefði verið að deita nokkrar stelpur, en auðvitað finndist mér fráleitt að blogga um það. Hann hafði dregið þá ályktun af því að lesa bloggið að ég væri alltaf á lausu.

Mér finnst oft sem þessi bloggsíða sé skaðleg fyrir sambandið við vini og kunningja. Þeir telja sig fá góðar upplýsingar um mig frá síðunni og ég skemmi oft margar sögurnar mínar með því að skrifa þær fyrst inn hérna og segja þeim þær svo í eigin persónu síðar. Það er hálf asnalegt. Ég lofaði mér einhvern tímann að segja aldrei við vini mína: “Hefurðu ekki lesið bloggið mitt?” þegar þeir forvitnuðust um eitthvað í mínu lífi.

En svona er þetta bara akkúrat núna. Real Madrid – Barca er að byrja eftir hálftíma og í Vesturbænum er brjálaður bylur og ég að hlusta á Sigur Rós, sem veldur því að ég verð eitthvað melódramatískur.

Og svo fannst mér ég þurfa að skrifa hingað inn einhverjar aðeins líflegri pælingar en tónlistarmyndbönd og vangaveltur um VG og ESB.

Annars er ég bara hress. 🙂