Helgin

Helgin er búin að vera fín…

Fór á Peter, Björn og John tónleikana á föstudagskvöld með Jensa. Þeir voru verulega góðir. Sprengjuhöllin hitaði upp og þar sá ég þá spila Samfylkingarlagið í fyrra skipti af tveimur þessa helgi. Svo kom Pétur Ben, sem minnti mann ansi mikið á Damien Rice á tónleikum.

PB & J voru verulega skemmtilegir. Björn, bassaleikari leit út einsog hann hefði reykt hálft kíló af hassi, í einhvers konar fáránlegri sæluvímu – á meðan að gítarleikarinn virtist vera á spítti allan tímann. Mjög fróðleg blanda.

Þeir tóku að mestu lög af Writer’s Block, sem er fínt, enda er sú plata afbragð. Ég var í afskaplega góðu skapi – og bjórarnir urðu einhvern veginn til þess að mér fannst allt svo yndislegt – stelpurnar svo fallegar, fólkið svo skemmtilegt og tónlistin svo mikið æði. En allavegana var ég voðalega sáttur.

Landsfundurinn var svo góður. Það er víst nóg af fólki á Moggablogginu, sem lýsir yfir ánægju með fundinn, eða talar um það að Samfylkingin sé flokkur djöfulsins, þannig að ég nenni varla að bæta í þann pott.

En tilfinningin við að vera þarna var góð. Ef ég hefði ekki verið viss, þá hefði ég sannfærst á þessum fundi að ég væri á réttum stað í pólitíkinni. Ræðurnar voru margar hverjar mjög skemmtilegar, sérstaklega hjá gestunum um jafnréttismál – og svo hjá framtíðarþingmönnum um hin ýmsu mál – sérstaklega hjá Árna Páli, sem ég held að sé mögulegur framtíðarleiðtogi Samfylkingarinnar.

Deginum í dag hef ég eytt í vinnu að mestu leyti. Sit núna og horfi á Cubs í tölvunni, sem er tengd við sjónvarpið mitt…. og þeir tapa. Þvílík hörmungar íþróttahelgi. Guði sé lof fyrir [ljósið í myrkrinu](http://www.nba.com/bulls/).