Ó

Er þessi þynnka eitthvað grín?

Ég er rétt núna klukkan 8 um kvöld að jafna mig á þynnku dagsins. Rétt náði að koma oní mig hamborgara af McDonald’s. Sannfærðist endanlega um að munurinn á McDonald’s á Íslandi og í útlöndum er gríðarlega mikill. Ég fer afar sjaldan hérna heima, en í síðustu tvö skipti sem ég hef farið þá hef ég einfaldlega fengið gamla hamborgara. Útí Svíþjóð þurfti ég að bíða aðeins eftir hamborgaranum mínum, en þá voru þeir líka nýeldaðir og æðislega góðir (ég er mikill aðdáandi McDonald’s nota bene) en hérna heima hef ég borðað McBeikon og nú BigMac og í bæði skiptin hafa þeir greinilega staðið nokkuð lengi. Skamm skamm!

* * *

Allavegana, ég var á djamminu í gær. Á föstudaginn var ég í þrítugsafmæli hjá vini mínum, sem endaði frekar snemma og enginn fór í bæinn. Ég varð því að gera betur í gær. Mætti á Kaffi Kúltúra þar sem UJ var með eitthvað dæmi. Þar sat ég að drykkju með góðu fólki, gerði þau reginmistök að ræða um Ísrael en skemmti mér almennt séð mjög vel.

Við ákváðum svo að fara á annan stað. Við tók fáránlegasta biðraðakjaftæði sem ég hef lent í lengi. Beisiklí þá stóðum við í biðröð fyrir framan eftirfarandi staði: Ólíver, Hverfisbarinn, 11, Kaffibarinn, Boston, Dillon, Vegamót og Ölstofuna. Við vorum á fyrstu tveim stöðunum af því að okkur fannst það á einhverjum tímapunkti fyndið, en allavegana þá komumst við ekki inná neinn stað nema 11. Við enduðum þó á Ölstofunni, sem var þó lokað klukkan 4.

Guði sé lof fyrir að sá staður lokaði klukkan 4, því nógu andskoti mikið hafði ég nú drukkið þrátt fyrir það. Þegar ég vaknaði um 9 leytið í morgun var ég með svakalegasta hausverk, sem ég held að ég hafi á ævinni fengið.

* * *

Vinkona mín sem stóð með mér í röðinni á Vegamótum sagði að ef einhver ætti að vera með VIP kort á Vegamótum þá væri það ég. Ég hefði stundað staðinn í mörg ár, væri alltaf að auglýsa staðinn hérna á þessari nokkuð vinsælu bloggsíðu, ég væri þarna nánast hverja helgi og ég borðaði þarna nokkrum sinnum í mánuði.

Ég er sammála henni. Ég þyrfti bara að sýna eigendum staðarins kreditkorta yfirlitið mitt til þess að þeir sannfærðust. Veit einhver hvernig ég get reddað mér slíku? Ég nenni ekki þessu biðraðadæmi lengur.

* * *

Þetta er dálítið fyndin færsla. Ég verð þó að játa að ég man ekki eftir þessu samtali inná klósettinu á Vegamótum.

* * *

Lagaði aðeins til síðuna, kláraði í raun loksins að gera hana einsog hún var áður en ég flutti mig yfir í WordPress. Núna sjást nýjustu ummælin hérna hægra megin. Held að ég sé sæmilega sáttur við skiptin yfir í WordPress. Þetta kerfi er alls ekki gallalaust og ég sakna nokkurra hluta úr Movable Type, en ég held samt að þetta hafi verið rétt ákvörðun.

* * *

Byltingin hans Chavez heldur áfram í Venezuela.  Magnað.