Nýjar æfingar, þreyta og Manic Street Preachers

Tvær síðustu vikur hef ég verið að fylgja nýju æfingaplani, sem að er hreinlega að gera út við félagslíf mitt. Planið byggist á því að ég mæti klukkan 7 inní Laugar (sjáiði hvað ég er lúmskur að koma því að hvar ég er staddur ), hleyp þar í sirka klukkutíma, fer svo í vinnuna og er mættur aftur klukkan 12 og lyfti þá lóðum.

Þetta er í fínu lagi…

… nema fyrir þá staðreynd að þegar ég kem heim á daginn úr vinnu, sem er vanalega um 5-6 leytið, þá gjörsamlega slökknar á allri líkamsstarfsemi. Ég á til dæmis í alvarlegum erfiðleikum núna með það eitt að halda augunum opnum. Ég geri mér nú grein fyrir því að fótaæfingar draga úr manni það mikla orku að augnlok hafa ekki einu sinni lengur kraft til að halda sér opnum.

Því hefur áhugi minn á því að gera eitthvað annað á kvöldin en að sofa eða horfa á sjónvarp minnkað umtalsvert. Tvö síðustu kvöld hefur fólk gert heiðarlegar tilraunir til að draga mig af sófanum og útúr húsi. Þær tilraunir hafa mistekist hrapallega. Ég vona þó að fólk hætti ekki að reyna, þetta getur varla haldið svona áfram.

Opinbert takmark þessa átaks er að líta út einsog forsíðumódel á Men’s Fitness blaði. Ef það tekst ekki með þessu prógrammi, þá tekst það aldrei.

* * *

Þessi landsleikur er svo ekki beinlínis að blása í mig krafti.

Það sama má segja um þetta veður.

* * *

Hins vegar er nýja Manic Street Preachers platan afskaplega hressandi. Til að sýna hversu ömurlegur Manics aðdáandi ég er, þá vissi ég ekki einu sinni að þeir væru komnir með nýja plötu fyrr en ég las þessa færslu hjá Palla. Allavegana, á nýju plötunni þá syngja þeir m.a.s. með NÍNU minni, sem er uppáhaldssöngkonan mín! Pæliði í því (sjá myndband á Yotube með því lagi)! Fyrsta lagið á plötunni er líka skuggalega svalt!

Manic Street Preachers hafa lengi verið ein af mínum uppáhaldssveitum. Ein platan þeirra inniheldur til að mynda fullkomnustu byrjun í rokksögunni (að mínu mati auðvitað), en það er This is My truth, tell me Yours, sem byrjar á The Everlasting, sem ég hef alltaf tengt ákveðnum sambandsslitum í mínu lífi og svo If you tolerate this, then your children will be next, en ég efast um að ég hafi hlustað á mörg lög oftar á ævinni.

Og víst ég er farinn að Youtube-ast með Manic Street Preachers, þá er hérna mynband með þeirra besta lagi, Motorcycle Emptiness.

Frábær hljómsveit!