Whitney, Couchsurfing, djamm, Ólíver og Ölstofan

Punktablogg:

 • Þriðju helgina í röð var ég með Couchsurfing gest hjá mér. Í þetta skiptið var það bandarísk stelpa (Jena), sem var mjög skemmtileg. Við djömmuðum m.a. saman bæði kvöldin og skemmti ég mér ótrúlega vel í bæði skiptin. Ég ætla þó að hvíla mig aðeins á þessu Couchsurfing dæmi á næstunni.
 • Á föstudaginn fórum við milli bara í miðbænum. Borðuðum á Vegamótum, fórum svo á Boston, Kúltúra, Prikið, svo aftur á Ólíver og enduðum á Vegamótum. Ég fór síðan eftir það í partí uppá Reykjavíkurflugvelli.
 • Á Ólíver kynntumst við bandarísku pari og áströlskum strák. Þar rifjaðist líka upp fyrir mér af hverju ég hef ekki farið á Ólíver í hálft ár. Samkvæmt Mogganum er Ólíver lang vinsælasti staður landsins með um 2300 gesti á laugardagskvöldi. Það er nokkuð magnað. Allavegana, tvær ástæður fyrir því að Ólíver er ekki í náðinni hjá mér: Fyrir það fyrsta eru það allir þessir gaurar sem panta sér borð fyrir kvöldið og sitja þar með vodkaflösku og Magic og láta einsog kóngar. Á föstudaginn virtust þetta aðallega vera útlendingar, Bretar í steggjapartíum svona svipað einsog á vinsælasta staðnum í Prag. Ólíver virðist vera orðinn staðurinn sem útlendingum slefandi á eftir íslenskum stelpum er beint inná. Hin ástæðan: Jena dró mig útá dansgólfið þegar að eitthvað skemmtilegt lag var í spilun. Það tók okkur smá tíma að komast á gólfið og þegar við loksins komumst þangað var næsta lag byrjað. Hvaða lag var það? Jú, I wanna dance with somebody með Whitney Houston.
 • Við héldum því á Vegamót. Ástralski strákurinn nánast faðmaði mig fyrir að beina honum á þann stað. Ég skildi þau svo eftir þar og fór uppá flugvöll.
 • Í gær fórum við svo í matarboð til vina minna og kíktum svo örstutt í útskriftarpartí.
 • Fórum svo í bæinn. Fyrst á Vegamót, svo á Barinn og fengum okkur svo drykk á Kúltúra. Komum aftur á Vegamót og þá var komin fáránleg biðröð þar. Þar héngum við í um hálftíma-45 mín í algjörri stöppu og ég var nánast kominn með keðjufar á rassinn eftir þetta allt. Að lokum gáfumst við upp og fórum á Ölstofuna.
 • Þetta er í síðasta skiptið sem ég fer í þessa biðröð á Vegamótum. Annaðhvort redda ég mér einhverju korti (sem er reyndar í vinnslu) eða ég fer eitthvað annað. Það er ekki hægt að bjóða manni uppá þetta. Ég er of gamall fyrir svona kjaftæði.
 • Á Ölstofunni var hins vegar gaman. Sátum þarna með afskaplega góðu fólki í mjög langan tíma. Hitti fólk sem ég bara hitt á netinu áður og fulltaf öðru skemmtilegu fólki. Tókst að biðjast afsökunnar á því hvað ég var mikið fífl fyrir einhverjum vikum við eina manneskju og eitthvað fleira. Mjög gott kvöld.
 • Enduðum svo á einhverjum Habibi stað, sem er þar sem Purple Onion var einu sinni. Sé ekki alveg hver munurinn á þessum stað og Purple Onion er. Borðuðum því samloku á meðan við löbbuðum heim.
 • Tveir staðir sem eru 100 sinnum meira heillandi eftir að reykingabannið tók gildi: Ölstofan og Boston. Ég sat í gærkvöldi á Ölstofunni í einhverja 3 tíma og skemmti mér ljómandi vel. Fyrir bannið gat ég varla setið þar í meira en hálftíma.
 • Jena er farinn heim til sín og ég sit hérna heima og er að bíða eftir því að lokaumferðin í spænsku deildinni byrji. Ég nenni ekki niður í bæ. Í fyrra var ég allur í fjölskyldustemningunni á 17.júní, en aðstæður hafa breyst í ár.
 • Mér líður hálf skringilega. Einsog ég hafi gert eitthvað vitlaust í gær, en samt var þetta í alla staði gott kvöld. Ég er ekki einu sinni þunnur, sem er skemmtileg tilbreyting frá gærdeginum.