Kjötbollur? Í alvöru talað?

Ég er kominn heim. Þið getið því formlega kysst þetta góða veður BLESS!

* * *

Tveir náungar sem ég þyrfti að eiga orð við. Fyrir það fyrsta: Gaurinn sem ákvað að Flugleiðir myndu servera kjötbollur úr kjötfarsi í Ameríku-fluginu! Í alvöru talað? Kjötfars er að mig minnir samblanda af bylgjupappa og innyflum úr óþekktum dýrategundum. Gat enginn hjá Icelandair fundið aaaðeins ódýrara kjöt? Var allt hvalkjöt uppselt?

Seinni gaurinn er diplómat í Brussel, sem ákvað það – að eftir að maður hefur farið í gegnum vopnaleit í USA þar sem ég þurfti meðal annars að fara úr skónum og standa inní klefa þar sem einhverjum efnum var sprautað á mig í 15 sekúndur – og eftir 5 tíma flug í þröngri flugvél, þá þyrfti maður líka að standa í biðröð eftir því að fara í aðra vopnaleit þegar maður er kominn heim til Íslands.

Svo þegar maður er nýbúinn að setja á sig beltið, þá tekur tollurinn aftur af mér allar töskurnar og leitar í þeim líka.

Velkominn til fokking Íslands.

(Annars var ferðin frábær. Skrifa meira um hana seinna).