Haust?

Mér líður hálf skringilega núna.  Sumarið er einhvern veginn búið hérna á Íslandi.  Hérna er búin að vera rigning og haustveður.  Sem er fáránlegt, því alls staðar í Evrópu er enn sumar.  Þetta sumar á þessu landi er hálfgert djók.  Það byrjar eiginlega ekki fyrr en í júlí og svo byrja allir að tala um að það sé búið fyrstu vikuna í ágúst.

Ég hef ekki upplifað haust á Íslandi í sennilega ein 8-9 ár.  Þegar ég var í háskóla þá var ég alltaf farinn af Íslandi í kringum 10-15.september og þá upplifði ég sumarveður í Chicago nánast fram í október.  Síðustu ár hef ég svo alltaf farið til útlanda á haustin.  Fyrst Rússlands, svo Bandaríkjanna, svo Mið-Ameríku og núna síðast til Suð-Austur Asíu þar sem ég eyddi öllum september og október mánuði.

Þess vegna hefur mér alltaf tekist að framlengja sumarið mitt umtalsvert.  Þetta haustið mun það hins vegar ekki gerast, aðallega vegna þess að ég hef ekki treyst mér til að fara frá fyrirtækinu mínu akkúrat þessa stundina.  Þess vegna er ég að reyna að sætta mig við að sumarið sé búið.  Það er dálítið erfitt þar sem mér finnst einsog ég hafi ekki gert neina sumarhluti.  Ég var ekki ástfanginn, ég fór ekki í útilegu, ég lá ekki í grasinu á Austurvelli og ég borðaði nær aldrei úti.

Einhvern veginn er einsog þetta sumar hafi bara farið í vinnu.  Vissulega hefur hún skilað ýmsu, en samt þá skilur þetta eftir  einhverja tómatilfinningu hjá mér.

Í gær kláraðist ákveðið verkefni í vinnunni og því líður mér hálf skringilega í dag.  Ég var með vinum í bænum í gærkvöldi, en samt er engin þynnka í gangi.  En það var ákveðið spennufall í morgun og því er ég hálf skrýtinn í hausnum.  Mig langar út.  Ég er búinn að vera að hugsa um gömul ferðalög og velta í hausnum fyrir mér nýjum áfangastöðum.  Ég held að ég komist því miður ekki í neitt langt frí á þessu ári, en vonandi opnast þá möguleiki fyrir enn frekari ferðalögum á því næsta.