Serrano kaupir Síam

Jæja, þar sem að Blaðið fjallar um þessi viðskipti í dag, þá er sennilega kominn tími til að ég bloggi aðeins um það sem hefur (ásamt öðrum spennandi verkefnum) haldið mér uppteknum síðustu vikurnar.

Við á Serrano erum semsagt búnir að kaupa veitingastaðinn [Síam](http://siam.is/) í Hafnarfirði. Þetta er lítill veitingastaður, sem á sér langa sögu. Hann hefur frá upphafi verið rekin af hjónunum, Stefaníu Björnsdóttur og Manit Saifa (sjá mynd af okkur ásamt þeim hjónum við eigendaskiptin). Stefanía hefur séð um afgreiðsluna, en Tim, sem er frá Taílandi hefur frá upphafi séð um eldamennskuna. Staðurinn var fyrst rekinn af þeim hjónum í Síðumúla undir nafninu Bangkok, sem var fyrsti taílenski veitingastaðurinn á Norðurlöndum (stofnaður árið 1985). Síðan hefur staðurinn verið rekinn niðrí miðbæ og núna síðustu 5 árin undir nafninu Síam í Hafnarfirði.

Við Emil (meðeigandi minn á Serrano) höfum lengi verið hrifnir af Síam. Ég hef verið mikill aðdáandi taílensks matar síðustu árin og aðeins fjarlægðin í Hafnarfjörð hefur gert það að verkum að ég hef ekki borðað oftar á Síam. Ég trúi því þó að þrátt fyrir aðra virkilega góða taílenska staði (einsog t.d. Krua Thai, sem er afbragð) þá sé maturinn á Síam besti taílenski maturinn á Íslandi.

Við eigendaskiptin hætta Tim og Stefanía að vinna á staðnum og því höfum við lagt gríðarlega þunga áherslu á að viðhalda öllum vinnubrögðum Tims í eldhúsinu, enda viljum við halda áfram sama gæðastaðli á matnum og hefur verið. Því höfum við verið með nokkra kokka í læri hjá Tim undanfarnar vikur til þess að allar uppskriftir og ferlar haldi sér. Síam hefur í gegnum árin eignast gríðarlega tryggan aðdáendahóp, enda maturinn frábær, og ætlum við að tryggja að þessir tryggu kúnnar muni áfram fá sömu góðu þjónustu og sama frábæra matinn og áður.

Unfanfarnar vikur höfum við líka unnið að talsverðum breytingum á staðnum, sem munu koma í ljós smám saman. Við höfum breytt um logo (gamla logoið má sjá [hér](http://siam.is/siam-gamaltlogo.jpg) og það nýja [hér](http://siam.is/) (logo-ið er hannað af Vatíkaninu). Við munum líka á næstu vikum fjölga borðum í sal, lengja opnunartíma, bæta merkingar á húsi og gera fleiri hluti, sem munu bæta þjónustuna við kúnna staðarins. Einnig munum við bæta við réttum úr smiðju Tim, sem að hafa ekki verið á matseðli, auk þess að kynna staðinn betur.

Seinna í mánuðinum munum við svo lengja opnunartímann. Í dag er staðurinn aðeins opinn frá 18-21 á kvöldin, en afgreiðslutíminn verður lengdur til 11.30-21.30, enda teljum við að það sé mikil eftirspurn eftir góðum mat í hádeginu á þessum slóðum.

Allavegana, ég hvet alla sem að lesa þessa síðu til að prófa Síam. Staðurinn er í Dalshrauni 11 í Hafnarfirði, á móti Gaflinum – í sama húsi og líkamsræktarstöðin Hress.