iPhone

Jæja, 9 mánaða bið er á enda, ég er kominn með iPhone.

Bróðir minn er útí USA og hann keypti símann handa mér og sendi hann heim með vini sínum fyrir helgi. Í stað þess að vera á einhverju djammrugli í gær þá eyddi ég kvöldinu í að aflæsa símann og fá hann til að virka.

Það tók mig kannski svona 2- 3 tíma að fá þetta til að virka, en núna virkar hann nánast alveg einsog hann myndir gera í USA, bara með kort frá Símanum.

Ég er búinn að lesa og skoða svo mikið um þennan síma að það er fátt sem kemur mér á óvart. En hann er algjörlega æðislegur, án efa lang, langskemmtilegasti sími sem ég hef átt. Kannski er helsta geðveikin sú að hann kostaði mig minna (25 þúsund) en flestir símar sem ég gæti fengið útí næstu búð hérna heima. Hann er til að mynda um 10 þúsundum ódýrari en u600 síminn frá Samsung, sem ég átti fyrir.

Fyrir Apple aðdáanda og Makka notanda einsog mig þá er þetta auðvitað bylting. Síminn sync-ar addressu bókina mína fullkomlega með myndum og öllu og það sama á við um dagatal og uppáhalds síður í Safari. Einnig er iPod-inn í símanum æði. Maður getur hlustað á tónlist á fullu, en svo þegar það kemur símtal þá lækkar tónlistin og maður getur svarað.

Það er eiginlega of margt gott við þennan síma til að lýsa því í stuttu máli. Ég hef allavegana ekki verið svona spenntur fyrir nýju tæki mjög lengi. 🙂