Cubs í úrslitakeppninni

Þessa dagana reyni ég að hugsa sem minnst um fótbolta.  Þar sem fátt kemur í staðinn fyrir íþróttir í mínu lífi, þá verð ég því að halla mér að annarri íþrótt.

Og það vill svo skemmtilegast að í þeirri íþrótt, sem er í næstmestu uppáhaldi hjá mér, þá er mitt lið Chicago Cubs í góðum málum.  Úrlistakeppnin í bandarísku hafnaboltadeildinni byrjar nefnilega í nótt þegar að Cubs fara til Phoenix og spila við Arizona Diamondbacks.  Ef þeir vinna það einvígi (fyrsta liðið til að vinna 3 leiki) þá spila þeir til úrslita í National League deildinni, og ef þeir vinna þar (fyrsta liðið til að vinna 4 leiki) þá eru þeir komnir í World Series einvígið við sigurvegarann í American League (sem verður að öllum líkindum annaðhvort Boston Red Sox eða New York Yankees).

World Series titilinn hefur Chicago Cubs ekki unnið í **99 ár**.  Það er hreint með ólíkindum.  Árið 1907 unnu Cubs síðast titilinn.  Í ár hefur liðið skánað mjög eftir því sem liðið hefur á tímabilið.  Þeir byrjuðu afleitlega, en eftir fjöldaslagsmál og annað vesen í júní þá hafa hlutirnir legið uppá við.  Aðallega vegna þess að liðið er með góðan hóp af kösturum og svo hafa þeir 3 gríðarlega sterka leikmenn (Aramis Ramirez, Derrik Lee og Alfonso Soriano), sem hafa haldið sókninni uppi ásamt yngri leikmönnum.

Í Chicago eru menn þokkalega bjartsýnir fyrir þessa úrslitakeppni.  Það að hafa ekki unnið í 99 ár gerir menn þó ansi hrædda við að spá einhverjum stórsigrum, en Jayson Stark hjá ESPN [spáir Cubs sigri](http://sports.espn.go.com/mlb/playoffs2007/columns/story?columnist=stark_jayson&id=3047027) í pistli í dag.  Ég held að ég nái ekki að vaka í kvöld, en ég ætla að reyna að ná sem flestum leikjum í þessari rimmu