Springsteen, Serrano og Vista

Það er alveg ljóst hvað mun einangra iTunes, iPod og iPhone spilun hjá mér á næstunni. Enda er ágætt að fá smá hvíld frá Kanye.

Nýji diskurinn frá Kanye West er búinn að vera í ansi mikilli spilun hjá mér að undanförnu og get ég ekki annað en mælt með honum. Ég verð þó að segja að við fyrstu hlustun virkar Magic með Springsteen alveg rosalega vel á mig. Þetta er hressara rokk en á síðustu plötum, sem er gott mál.

* * *

Einsog einhverjir glöggir menn hafa sennilega rekist á í atvinnu-auglýsingum uppá síðkastið, þá erum við að fara að opna þriðja Serrano staðinn í september nóvember. Sá verður í Smáralind í því bili, þar sem áður var Wok Bar Nings. Það kom upp fyrir nokkrum mánuðum að Nings menn vildu hætta með Wok Barinn í Smáralindinni og höfðu þeir því samband við mig. Við höfðum verið að líta í kringum okkur með húsnæði á svipuðum slóðum og leist okkur því strax vel á þetta.. Samningaviðræður tóku tiltölulega stuttan tíma við Nings og svo Smáralind og í lok júlí var þetta allt orðið klárt.

Þessi staður mun að mörgu leyti marka tímamót í sögu Serrano, því þarna munum við í fyrsta skipti opna alvöru, stóran stað með okkar eigin sal. Í dag rekum við staði inná bensínstöð og á matarsvæði í verslunarmiðstöð, þar sem við höfum enga stjórn á umhverfinu sem fólkið borðar í. Í Smáralind höfum við hins vegar fullt vald yfir því hvernig staðurinn mun líta út, hvernig tónlist verður spiluð og almennt séð hvernig andrúmsloftið verður.

Við réðum því til liðs við okkur hönnuð, sem hefur teiknað upp heildarútlit staðarins, sem ég held að verði mjög smart. Við munum líka leggja áherslu á að þetta verði fjölskylduvænni staður en hinir staðirnir eru í dag. Vinna við breytingar á staðnum eru nú þegar hafnar, en hann mun verða mjög ólíkur því sem að var þegar að Nings var þarna inni. Stefnt er að opnun í byrjun nóvember.

* * *

Meðal annars vegna þessa og líka alls í kringum Síam hefur vinnan mín verið ótrúlega spennandi og skemmtileg að undanförnu. Eftir einn mánuð verðum við komin með 4 veitingastaði og ég er að gæla við þann draum að salan í desember á Serrano og Síam verði meiri en ársveltan fyrsta árið, sem við vorum með Serrano í Kringlunni. Þar sem við höldum uppá 5 ára afmæli Serrano eftir tæpan mánuð, þá eru þetta spennandi tímar.

* * *

Þegar við keyptum tölvu fyrir Síam bað ég um að fá Windows XP inná tölvuna hjá Nýherja. Eitthvað virðist það hafa klikkað hjá þeim og því kom tölvan með Windows Vista. Þvílíkur bévítans hroðbjóður sem það stýrikerfi er nú. Fyrir það fyrsta þá fokkar það upp Office pakkanum okkar og núna þarf ég að leita í 20 mínútur að tökkunum sem ég notaði áður og auk þess þá koma upp einhverjar endalausar spurningar frá stýrikerfinu hvort ég sé viss um hvort ég vilji gera þetta eða hitt.

Annars sé ég ekki annað að þetta sé bara XP með rúnuðum gluggum og leiðinlegu böggi. Ég mun seint skilja af hverju allur heimurinn er ekki búinn að skipta yfir í Apple tölvur. Ég játa það alveg að fyrir 5-6 árum var ég ekkert með neitt sérstaklega mikið sjálfstraust sem Makka aðdáandi, en í dag þyrfti að borga mér stórar fjárhæðir fyrir að vinna vinnu þar sem ég þyrfti að nota Windows vél.

Annars hefur iPhone-inn minn það bara ágætt.