Serrano 5 ára

Fyrir 5 árum [skrifaði ég þessa færslu](http://eoe.is/gamalt/2002/11/01/) um fyrsta daginn okkar á Serrano. Þann dag var ég að tapa mér í stresskasti og flest fór úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis. En núna 5 árum seinna hefur það sannast að fall er fararheill. Emil félagi minn sagði í gær að hann trúði því varla að það væru fimm ár síðan að hann vakti alla nóttina til að opna staðnn og síðan að ég gat ekki borðað matinn útaf stressi.

Ég hef áður skrifað á þessari síðu [hvernig Serrano varð til í hausnum á mér](https://www.eoe.is/gamalt/2004/12/13/18.45.13/) fyrir einhverjum 6 árum. Hvernig að upphaflega hugmyndin kom fyrst fram fyrir heilum 9 árum hjá okkur Emil á einhverju rútuferðalagi í Suður-Ameríku. Og það hvernig hugmyndin mótaðist á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum og hvernig maturinn varð til í eldhúsinu okkar Hildar í Chicago.

Það er alveg hreint ótrúlega skemmtileg tilviljun að í dag sé aðeins vika í það að við opnum veitingastað í Smáralind. Því að planið var alltaf að opna Serrano í Smáralind fyrir 5 árum. Þá var okkur hins vegar hafnað og í staðinn var ákveðið að bíða eftir Burger King, sem að lokum opnuðu stað þar. Kringlu- og Stoðamenn höfðu hins vegar meiri trú á okkur og því opnuðum við okkar fyrsta stað í Kringlunni þann 1.nóvember árið 2002. Núna 5 árum seinna er það því ótrúlega sætt að geta opnað í Smáralind og fá tækifæri til að sanna okkur þar.

Fyrir mig er þetta síðasta ár búið að vera alveg einstakt. Ég tók fyrir alllöngu ákvörðun um að hætta í vinnunni minni og einbeita mér að Serrano. Þrátt fyrir að staðurinn væri ekkert rosalega stór, þá sá ég möguleikanna sem að staðurinn ætti inni. Núna hefur Serrano verið mitt aðalstarf í nákvæmlega 12 mánuði og árangurinn hefur verið frábær. Veltan hefur þrefaldast frá því sem hún var fyrir ári og það segir aðeins hluta af sögunni, því að við höfum líka keypt taílenska veitingastaðinn Síam og fullt er að gerast í Serrano málum.

Í næstu viku opnum við svo þriðja Serrano staðinn í Smáralind og það er okkar plan að innan 6 mánuða verði Serrano staðirnir orðnir 5 talsins. Við erum búnir að skrifa undir samninga um húsaleigu í báðum tilfellum og munu framkvæmdir á fyrri staðnum hefjast á næstu vikum. Þetta er því ótrúlega spennandi og skemmtilegur tími í sögu þessa fyrirtækis.

* * *

Ég er búinn að kynnast ótrúlegum fjölda fólks í tengslum við þennan rekstur og ég get sagt að við höfum aldrei verið jafn vel settir með starfsfólk einsog í dag. Staðurinn hefur líka aldrei verið jafn vel rekinn og hann er í dag.

Og það magnaðasta í þessu er að við Emil höfum í gegnum þessi 5 ár haldið áfram að vera bestu vinir. Vissulega höfum við rifist um einstaka hluti í rekstrinum, en það hefur ætíð verið gleymt innan nokkurra klukkutíma. Við hefðum allavegana aldrei getað gert þetta án hvors annars. Þrátt fyrir að einkalífið hjá mér hafi kannski ekki alltaf gengið upp á síðustu árum, þá stendur það samt sem áður eftir að ég get verið stoltur af þessu mexíkóska ævintýri.