Punktablogg helgarinnar

Jammmm.

  • Á Vegamótum á laugardagskvöldið hitti ég stelpu, sem ég kannast við, sem var að reyna að koma mér saman við vinkonu sína. Það eina, sem hún taldi upp sem kosti (vissulega á afar stuttum tíma) var vinnan sem stelpan var í. Ég held að það hafi aldrei gerst áður að starfstitill hafi verið nefndur sem kostur við stelpu við mig.
  • Ef ég er einn heima og hef frítíma (sem gerist reyndar ekki oft þessa dagana), þá eru svona 85% líkur á því að ég sé að spila Super Mario Galaxy, sem er einmitt besti tölvuleikur sem ég hef spilað í langan, langan tíma.
  • Á Kaffibarnum var ég að bíða eftir klósetti á meðan að par var að athafna sig þar inni. Næsti gaurinn í röðinni spurði hvort ég ætlaði bara að pissa eða hvort ég ætlaði líka að fá mér línu. Ég sagðist bara þurfa að pissa. Ógeðslega glatað!
  • Síðasta lagið eftir lokun á Vegamótum var Heartbeats með Jose Gonzalez, sem ég hafði ekki hlustað á í einhvern tíma. Mikið afskaplega er það æðislegt lag.
  • Er þetta veður eitthvað grín?
  • Hérna er skemmtileg síða með allskonar topplistum ársins að mati Time.
  • Hjá Dr. Gunna var Arcade Fire með plötu ársins. Ég kemst ekki yfir það að mér finnst þessi plata með þeim vera hundleiðinleg og þó dýrkaði ég frumraun þeirra. Ég kem auðvitað með minn lista um áramótin, en þetta verður val á milli LCD, Kanye, Okkervil, Radiohead og Jensa Lekman.

Svo mörg voru þau orð.