Hlutirnir sem barnabörnin ættu að vita

Það eru næstum því tvö ár síðan ég skrifaði þennan áramótapistil þar sem ég var á frekar miklum bömmer og hlustaði stanslaust á Eels, sérstaklega Things the grandchildren should know.

Í dag líður mér sirka 100 sinnum betur (þetta hjálpaði auðvitað) og á slíkum stundum er alltaf hálf skrýtið að grípa í lög sem maður tengir svo leiðinlegum tímum í sínu lífi. Það getur verið ótrúlegt hversu samofin ákveðnum tímabilum í lífi manns ákveðin lög geta verið.

Ég get til dæmis varla hlustað á Last Goodbye með Buckley án þess að hugsa til allra þeirra stunda sem ég lá uppí rúmi lesandi ljóð frá fyrrverandi kærustunni minni, miður mín yfir því að við værum í sitthvorri heimsálfunni. Og ég á enn erfitt með að hlusta á Don’t think twice, it’s alright án þess að það verði til þess að upp fyrir mér rifjist hvernig mér fannst önnur stelpa hafa svikið mig.

En það var eitthvað við að að hlusta á Things the grandchildren should know í kvöld, sem fékk mig til að líða alveg einstaklega vel. Það getur nefnilega tvennt gerst þegar maður heyrir á góðum stundum í lífinu lög sem maður tengir þeim slæmu. Annaðhvort vekur það upp slæmar tilfinningar og rífur upp gömul sár. Eða þá að lögin gefa manni smá perspektíf. Þau hjálpa manni að rifja upp að hlutirnir voru einu sinni alveg ferlega ömurlegir, en að í dag séu þeir svo miklu, miklu betri.

Þess vegna verð ég glaður við að hlusta á Eels í dag. Þetta lag hjálpar mér að meta það hversu gott ég hef það núna.