Ferðalög og blogg

Fyrir einhverjum mánuðum benti einn Couhsurfing gestur mér á síðuna World’s Most Traveled People, sem er áhugaverð fyrir ferðalaga-nörda. Þar er heiminum skipt uppí 673 svæði. Síðan virðist ekki vera mjög vinsæl á Íslandi þar sem ég er í efsta sæti meðal Íslendinga, en ég hef ferðast til 83 staða og á því “bara” 590 staði eftir.

Stofnandi síðunnar, Charles Veley hefur komið til 629 staða og á aðeins 44 eftir. Gott hjá honum.

* * *

Samkvæmt þessum lista er þetta blogg 14. vinsælasta bloggið á Blogg-Gáttinni. Einnig er það í 5. sæti yfir þau blogg, sem oftast voru í efsta sæti á Blogg Gáttinni. Það er ágætt miðað við hversu illa þessi bloggsíða er uppfærð. Og einnig er það nokkuð merkilegt í ljósi þess að þessi bloggsíða fjallar nánast eingöngu um sjálfan mig, en ekki um pólitík, trúmál eða önnur slík mál, sem fólk virðist elska að þræta um.

Einnig er athyglisvert að þessi síða er talsvert vinsælli en Liverpool bloggið á Blogg gáttinni (sem lendir í 22.sæti). Aðalástæðan fyrir því er auðvitað sú að svo margir fara beint inná Liverpool bloggið, þar sem flestir sem skoða þá síðu lesa líka umræðurnar sem eru í gangi allan sólarhringinn, en koma ekki eingöngu inn þegar að nýjar færslur koma inn, líkt og er sennilega á þessu bloggi. Liverpool bloggið fær allavegana umtalsvert fleiri heimsóknir á hverjum degi en þetta blogg.

Mér finnst það líka pínu magnað að af 20 vinsælustu bloggunum samkvæmt þessum lista, þá les ég bara fimm: Silfur Egils, Gneistann, Örvitann, Stefán Pálss og Henry.

* * *

Í dag er ég ennþá pirraður yfir fótboltaleik, sem var spilaður í Norðurlhuta Englands í gærkvöldi.  Það er á stundum sem þessum sem ég efast um geðheilsu mína.

* * *

Og ég vil fá snjó í þessu blessuðu fjöll í kringum borgina, svo ég geti prófað snjóbrettið mitt.  Það er nákvæmlega EKKERT gott við þetta veður sem á okkur dynur.  Ef einhver æðri vera gæti bent mér á tilganginn við svona veðurfar, þá væri það indælt.  Ég sé hann ekki.