Skrifstofan mín og gengismálin

Nota bene, ég skrifaði þetta á undan Dylan pistlinum, en birti ekki strax. Það skýrir byrjunina.

Ja hérna. Ein vika án þess að uppfæra þessa blessuðu síðu. Það mætti halda að hræðilega margt merkilegt hefði gerst í mínu lífi. Eða þá nákvæmlega ekkert.

Ég hef allavegana fátt til að skrifa um.

Jú, ég er kominn inná skrifstofu í fyrsta skipti í sögu Serrano. Hingað til höfum við bara haft litla holu fyrir ofan staðinn okkar í Kringlunni, þar sem ég hef reynt að koma mér fyrir ásamt verslunarstjóra, rekstrarstjóra og starfsfólki Kringlunnar sem vill tala við okkur. Sú hola er sennilega um 2-3 fermetrar, með litlu skrifborði þannig að ég hef oft setið í tröppunum eða á stól með tölvuna í fanginu.

Nú eða þá að ég hef bara unnið á kaffihúsum borgarinnar. Núna erum við hins vegar komin með skrifstofu í turninum í Smáralind. Ég er svo glaður að ég tók mynd af mér á nýju skrifstofunni. Jibbí jei!

* * *

Ég verð að játa að ég er ekkert alltof hrifinn af þessum gengismálum. Ég er ekki alveg að fíla það að eignir mínar, sem eru jú metnar í krónum, skuli hafa minnkað um fjórðung á nokkrum vikum. Ef þetta væri almennilegt land, þá væri búið að sparka Seðlabankastjóra landsins úr starfi sínu. Og við værum líka gengin í ESB. En auðvitað þurfa Sjálfstæðismenn að ríghalda í “sjálfstæða peningastefnu” og “fullveldi” landsins á meðan að eignir landsmanna hrynja í verði. Sveiflurnar í þessu hagkerfi eru svo fáránlegar að það er varla hægt að tala um þessi mál ógrátandi. Ísland í ESB, núna strax!

* * *

Í morgunþættinum Zúber í gærmorgun var fólk að hringja inn sem var í vandræðum útaf þessum gengisbreytingum. Meðal annars hringdi kona, sem átti 5,5 milljón króna bíl sem hún keypti með því að taka 70% lán í erlendri mynt. Nú er ég ekki einn af þeim sem gleðst yfir óförum annarra eða hlakka yfir því að bankastarfsmenn séu með allt niðrum sig. Langt því frá. En ég get einfaldlega ekki vorkennt fólki sem tekur 70% lán í erlendri mynt meðan krónan er í lágmarki til að kaupa sér bíl uppá 5,5 milljónir. Nú ek ég á 5 ára gamalli Nissan druslu, svo ég geri mér ekki grein fyrir því hvað nýjir bílar kosta, en samkvæmt stuttu tékki á toyota síðunni, þá getur maður keypt LandCruiser fyrir þannig pening. Sumar holur grefur fólk sér einfaldlega sjálft.

Af hverju finnst mér líka alltaf fólkið sem kvartar mest yfir bensínverðinu vera fólkið, sem er á eyðslumestu bílunum (og þá undanskil ég vitanlega atvinnubílstjóra)?

* * *

Á myndinni sem ég minntist á áðan má líka sjá að ég er kominn með stutt hár eftir að hafa verið með frekar sítt að aftan og framan í langan tíma. Þessi nýja stutta klipping gerir það að verkum að hárið á mér krullast allt upp, sem er mjög hressandi. Að ég held í fyrsta skipti á ævinni, þá klippti strákur hárið á mér.

Jú, og ég fór á bretti í annað skiptið á ævinni með vinkonu minni um helgina. Ég tók einhverjum framförum frá fyrsta skiptinu, en samt ekkert rosalega miklum. Og svo borðaði ég á Austur-Indíafélaginu, sem er alveg fáránlega góður veitingastaður ef að það hefur ekki komið nógu skýrt fram áður.