Á Inca Trail í Perú

Undanfarnar vikur er ég búinn að skanna inn gríðarlegt magn af gömlum filmum. Sem betur fer var ég dálítill ljósmyndanörd þegar ég var minni og hélt því vel uppá allar negatívurnar mínar. Það hefur komið sér vel og eftir að ég keypti skanna um jólin hef ég verið að dunda mér við að koma þessu á stafrænt form í hárri upplausn.

Núna er ég búinn að skanna um 1.700 myndir inn. Ég ætla svona öðru hvoru að henda hérna inn myndum, sem ég geymi á Flickr sem eru frá einhverjum atburðum í mínu lífi.

Fyrsta myndin kemur hér, en hún er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún er tekin í desember 1998. Þarna er ég ásamt þremur vinum mínum, Emil, Borgþóri og Friðrik. Við erum staddir á Inca Trail í Perú. Það er göngustígur, sem er yfir Urubamba ánni í Perú og liggur uppað Machu Picchu. (smelltu hér til að fá stærri útgáfu af myndinni)

Þegar við fórum í þessa 4 daga göngu þá gat fólk enn farið þessa göngu án leiðsögumanna (núna er bara hægt að fara í hópum). Við vorum því bara 4 saman með kort og vorum einir nánast allan daginn. Við hittum einstaka sinnum gönguhópa, fulla af fólki með litlar handtöskur, sem lét gædana bera allt dótið fyrir sig. Við hins vegar vorum að burðast með 20 kílóa poka með tjaldi og mat, svo að það gerði þessa ferð enn skemmtilegri fyrir okkur.

Þessi ferð uppað Machu Picchu er klárlega einn af hápunktunum á þeim ferðalögum sem ég hef farið í um ævina.