Hvar ætlar þú að búa?

Þessi grein eftir mig birtist í gær á Vefritinu

* * *

Kjördæmaskipulagið á Íslandi gerir það að verkum að stjórnmál snúast oft á tíðum um baráttu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Vegna ranglætis í kjördæmaskipulagi og mismunandi vægis atkvæða þá hefur landsbyggðin ávallt haft sterkari rödd á Alþingi okkar Íslendinga.

Ansi margir af þingmönnum landsbyggðarinnar, sem eru flestir komnir yfir fimmtugt (meðalaldur landsbyggðarþingmann er samkvæmt mínum útreikningum 55 ár), virðast líta á það sem sitt helsta hlutverk að stöðva flótta fólks frá þeirra kjördæmum yfir á höfuðborgarsvæðið.

Aðgerðir þeirra hafa tvenns konar áhrif. Fyrir það fyrsta draga þær meiri pening til landsbyggðarkjördæma til ýmissa verkefna, hvort sem það er til vegaframkvæmda, atvinnuskapandi verkefna, færslna á stofnunum og öðru slíku. Og í öðru lagi felast áhrifin í því að gera höfuðborgarsvæðið meira óaðlaðandi sem kost fyrir fólk til að búa á. Hvort sem að seinni niðurstaðan er ætlunarverk þeirra skal ósagt látið.

Hins vegar hafa aðgerðir síðasta tveggja samgönguráðherra verið nánast fjandsamlegar fyrir Reykjavík. Fyrir það fyrsta þá hafa þessir ráðherrar dregið ótrúlega lengi lagningu Sundabrautar. Þeir virðast engar áhyggjur hafa af þeim gríðarlegu tekjum sem tapast þegar að þúsundir höfuðborgarbúa þurfa að sitja í bílum sínum í mun lengri tíma en væri nauðsynlegur ef að Sundabraut væri staðreynd.

Í öðru lagi hafa þessir tveir ráðherrar gert allt sem í þeirra valdi stendur til að festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í sessi. Byggingarlandið, sem flugvöllurinn liggur á, er verðmætasta byggingarland höfuðborgarinnar. Það sem meira er, þetta land er sennilega okkar besta og hugsanlega síðasta tækifæri til að búa til í Reykjavík heillandi borgarsamfélag og forðast þá niðurstöðu að Reykjavík verði eingöngu samansafn af úthverfum tengd saman með hraðbrautum.

* * *

Ég nefni aldur þingmanna ekki vegna þess að ég hafi eitthvað sérstaklega á móti fólki, sem er komið yfir fimmtugt, heldur eingöngu til að benda á að þingmennirnir upplifðu allt annan raunveruleika á þeirra þrítugsaldri heldur en ungt fólk upplifir í dag. 55 ára gamall þingmaður var 41 árs gamall þegar að EES samkomulagið var gert. Einstaklingur sem var tvítugur árið 1973 stóð frammi fyrir allt öðrum (og færri) möguleikum en tvítugur einstaklingur gerir í dag.

Sennilega var það svo í kringum 1970 að fólk velti því í alvöru fyrir sér hvort það ætti að búa á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Í dag er það hins vegar svo að fæstir þeirra, sem hafa alist upp á höfuðborgarsvæðinu, hugsa til landsbyggðarinnar þegar þeir ákveða hvar þeir skuli búa.

Nei, alþjóðavæðingin og aðild okkar að EES hefur gert það að verkum að ungt fólk í dag horfir til allrar Evrópu þegar að það veltir því fyrir sér hvar það ætli að búa. Vel menntaður ungur Íslendingur getur sótt um vinnu í París, London, Róm, Kaupmannahöfn eða Madrid alveg einsog í Reykjavík. Þessar borgir bjóða uppá hlýrra loftslag, þróaðra borgarsamfélag, betri menntunarstofnanir, öflugra listalíf og svo framvegis og framvegis.

* * *

Því fer fjarri að ég hafi eitthvað á móti landsbyggðinni. Ég er alinn upp í borg og vil einfaldlega búa í borg. Þetta snýst bara um smekk minn. Málið er einfaldlega að þótt landsbyggðarþingmenn haldi enn að valið hjá ungu fólki standi á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, þá tel ég að það standi miklu frekar á milli Reykjavíkur og London, Kaupmannahafnar eða annarra evrópskra stórborga.

Þess vegna ættu stjórnmálamenn að hætta að reyna að spyrna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ættu að greiða götur nauðsynlegra samgöngubóta og þeir ættu að styðja það að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði fjarlægður hið fyrsta og að þar verði gerð tilraun til að byggja upp borgarsamfélag, sem getur veitt öðrum borgum í Evrópu samkeppni.

* * *

Verkefni nútíma stjórnmálamanna er nefnilega það að auka samkeppnishæfni höfuðborgarinnar við aðrar borgir Evrópu. Þeir Íslendingar sem búa í útlöndum verða að hafa einhverjar ástæður til að flytja heim aðra en þá að margir vina þeirra og fjölskyldumeðlima búi hér. Þetta þýðir að mennta- og velferðarkerfið á Íslandi verður að keppa við það besta sem evrópskar borgir bjóða uppá. Ungt fólk þar að geta gengið að bestu leikskólum og skólum, sem völ er á í Evrópu.

En einnig þá dæmir ungt fólk hvar það mun búa út frá því hvað borgarsamfélagið býður uppá. Flestir Íslendingar virðast sækja í gamlar evrópskar borgir fremur en bandarískar bílaborgir. Hvers vegna reynum við þá að byggja upp bílaborg í Reykavík? Af hverju er ekki meiri áhersla lögð á spennandi miðborgarlíf?

Reykjavík hefur í mínum huga marga kosti sem borg. Ég er alinn upp hér og flestir mínir vina búa hér. Hún býður uppá ótrúlega öflugt menningarlíf miðað við stærð, hvort sem það eru heimsklassa veitingastaðir, leikhúslíf eða tónlistarlíf. Það tekur mig einnig aðeins um hálftíma akstur að vera kominn á gott skíðasvæði, hér eru golfvellir innan borgarmarka, það er stutt í fjallgöngur og ótal aðra útivist sem að íbúa í London tæki marga klukkutíma ferðalag að nálgast.

En hún hefur líka á síðustu árum þróast í átt til bandarískrar bílaborgar, sem er ekki heillandi þróun.

Íslenskir stjórnmálamenn ættu að byrja að hugsa það hvernig þeir geti gert borgina að heillandi stað fyrir unga Íslendinga. Ef þeir gera það ekki, þá munu skæru ljós stórborganna í Evrópu verða sífellt meria heillandi fyrir ungt fólk hér á landi og við eiga það á hættu að missa okkar unga og hæfa fólk til stórborga í öðrum löndum.