Mið-Austurlandaferð 2: Frá Beirút til Tripoli

Þá er ég kominn til Tripoli í norður Líbanon. Ég er staddur á hryllilegu internet kaffihúsi með stífasta lyklaborði í heimi og verstu tengingu sunnan Alpafjalla, þannig að þetta verður sennilega stutt færsla. Ég reyni að skrifa eitthvað á meðan að tölvan tekur sér 50 sekúndur í að opna hvern einasta tölvupóst sem ég hef fengið. Svo virkar ritvinnsluforritið bara frá hægri til vinstri, sem flækir hutina enn frekar

Síðustu dagar hafa verið frábærir. Tíminn í Beirút var ágætis upphitun fyrir hin löndin því að borgin er mun Vestrænni en þær borgir sem ég mun heimsækja seinna í ferðinni. Allavegana, á sunnudaginn fór ég til Baalbek. Ég fékk ljótan, leiðinlegan og svikulan leigubílstjóra til að keyra með mig frá Beirút til Baalbek. Sú borg er í dag aðallega þekkt fyrir að vera helsta vígi Hezbollah hreyfingarinnar, sem var nokkuð augljóst því útum allt voru myndir af leiðtogum Hezbollah og fyrir utan fornleifarnar voru sölumenn að selja boli með merki Hezbollah. Nú er það yfirlýst takmark mitt að láta ekki fyrri stjórnmálaskoðanir mínar hafa áhrif á þetta ferðalag, heldur fara í það með opnum huga, en ég efast um að undir það umburðarlyndi falli fjárstuðningur til Hezbollah. Auk þess sem að ég efast um að ísraelskir landamæraverðir yrðu alltof hrifnir við það að finna slíka boli í bakpokanum mínum.

Allavegana, þá var Baalbek eitt sinn ein merkasta borgin í rómverska heimsveldinu. Helstu hlutar rústanna sem enn standa eru annars vegar risastórar súlur, sem tilheyrðu Júpiter hofinu. Aðeins sex af þessum súlum standa enn, en þær eru hæstu súlur sinnar tegundar í heiminum, alls 23 metra háar. Það er erfitt að lýsa þessu öllu nema á myndum, sem ég mun birta seinna. Hinn merkasti hluti Baalbek er svo hof til heiðurs Bakkus. Það er ótrúlega heillegt og fallegt hof, sem er stærra en Parthenon í Aþenu. Það besta við að skoða þessar rústir í Baalbek var að ég var EINN. Algjörlega EINN. Bara ég og þessar ótrúlegu rústir. Eftir að hafa skoðað fornleifar sem eru algjör túristagildra einsog t.d. Chichen Itza, þá var það alveg stórkostlegt að vera þarna algjörlega í friði. En ætli myndir geri þessu ekki betur skil. En Baalbek var stórkostleg upplifun!

* * *

Á leiðinni aftur til Beirút stoppuðum við svo við sirka 10 varðstöðvar þar sem að herinn stoppaði bíla, áður en við stoppuðum í Zachlé, þar sem ég borðaði. Daginn eftir fór ég svo frá Beirút upp til Byblos. Byblos er ein þeirra borga í heiminum, sem hafa verið lengst samfellt í byggð. Talið er að þar hafi verið búið allt frá því 5.000 árum fyrir Krist. Höfnin í Byblos er talin vera elsta höfn í heimi og margir segja að nútíma stafrófið hafi verið fundið upp þar. Fyrir borgarastríðið var Byblos svo vinsæll ferðamannastaður og Hollywood stjörnur komu þar til að slappa af.

Í dag eru í bænum samansafn af fornleifum, sem eru allt frá því að vera 6.000 ára gömul hof uppí 13.aldar kastala. Líkt og Baalbek gat ég skoðað þetta svæði algerlega einn. Um kvöldið borðaði ég svo kvöldmat á einum af sögufrægu veitingastöðunum í borginni ásamt pari frá Kanada, sem ég hafði kynnst fyrr um daginn.

* * *

Eftir að hafa sólað mig aðeins við MIðjarðarhafið í morgun tók ég svo rútu hingað upp til Tripoli. Hérna er ég búinn að skoða gamla miðbæinn, sem er meira í átt við það sem ég bjóst við á þessu ferðalagi, fullur af þröngum götum og mannmergð og lítil vestræn áhrif ólíkt Beirút. Á morgun ætla ég að fara með svissneskum strák sem ég kynntist á hótelinu í ferð uppí fjöllin fyrir austan borgina og svo er planið að fara yfir til Sýrlands á fimmtudaginn.

Skrifað í Tripoli, Líbanon klukkan 17.00