Mið-Austurlandaferð 3: Stríðsyfirlýsing

Það er alveg magnað við þessi ferðalög mín að ég á það til að skilja eftir mig sviðna jörð. Ég flaug frá Cancun daginn fyrir fellibyl, eldfjall fór að gjósa þegar ég keyrði framhjá því í El Salvador og daginn sem ég var á leiðinni yfir landamærin til Kambódíu, þá var framið valdarán í Taílandi og Thaksin var steypt af stóli.

Núna í morgun keyrði ég með 5 sýrlenskum verkamönnum og bílstjóra yfir landamærin frá Líbanon yfir til Sýrlands. Og hvað gerist sama dag?  Jú, Hezbollah hafa lýst yfir stríði í Líbanon. Einsog ég hafði skrifað um í fyrri pistlum var það augljóst að ástandið í Líbanon var mjög eldfimt og það var verulega furðulegt að vera í Beirút í þessu ástandi með verkföllum og fjölda hermanna á götum úti. Í fyrradag í Trípolí var okkur tjáð að það væri verið að skipuleggja mikil mótmæli í Beirút og Trípolí og þegar ég fór útúr húsi snemma í gærmorgun var herinn mættur á aðaltorgið í Trípolí, tilbúinn fyrir allt.

Ég eyddi deginum ásamt svissneskum strák, Roman, í ferð um Qadisha dalinn austur af Trípolí. Þegar við komum heim úr ferðinni var augljóst af kvöldfréttunum að ástandið var að versna. Flugvellinum hafði verið lokað og ástandið á götunum var orðið mjög slæmt. Í gær ákvað svo ríkisstjórnin að stöðva símakerfi sem er rekið af Hezbollah og við það varð allt vitlaust. Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, kom fram í sjónvarpi og lýsti yfir stríði á hendur stjórnvöldum.  Í dag og í kvöld hafa svo staðið yfir bardagar á milli súnníta og shíta í borginni.

Það er vonandi fyrir þessa blessuðu þjóð að þetta sé ekki upphafið á einhverju slæmu.

* * *

Einsog ég nefndi áður þá eyddi ég síðasta deginum í Líbanon í ferðalagi um Qadisha dalinn. Þetta er helgur dalur fyrir Maróníta, sem er Kristinn trúhópur, sem hefur ráðið mestöllu í Líbanon frá sjálfstæði landsins. Dalurinn er ótrúlega fallegur. Við ferðuðumst um hann allan með góðum leigubílstjóra, sem fór með okkur allt að Cedar skíðasvæðinu í um 2.500 metra hæð. Þar var snjórinn bráðinn, enda komið vor, en við gátum samt skoðað skóg af ævafornum cedar (hvernig þýðir maður “cedar” tré?) trjám, sem eru tákn (og á fána) Líbanon. Við skoðuðum svo ótrúlega falleg klaustur og borðuðum í Bcharré, sem er aðallega þekktur fyrir að vera fæðingarbær Khalil Gibran, sem að íslensk fermingabörn ættu að kannast við.

Í morgun fór ég svo yfir landamærin. Þar var furðu lítið vesen, þótt að landamæraverðirnir vissu ekki í byrjun hvað Ísland væri. Fór með leigubílnum að Homs, hvaðan ég tók rútu hingað til Hama. Hérna gisti ég á ágætis hóteli, sem ég sit inná núna. Internet-tenginin er ljómandi góð en þó er sýrlenska ríkisstjórnin svo tillitsöm að blokka algerlega á nokkrar síður, þar með talið Facebook og Youtube. Ljómandi alveg hreint!  Framleiðni Sýrlendinga hlýtur að vera mun betri fyrir vikið.

Ég fór svo í dag í ferðalag að kastalarústum hér í nágrenninu, sem ég man ekki hvað heita og drakk svo te í moldarhúsum sem líkjast býflugnabú-um (sjá hér)

* * *

Sýrland er öðruvísi en Líbanon. Þetta eru mjög ólík lönd. Hér er ekkert vestrænt. Engir KFC staðir og það fæst ekki einu sinni Coca Cola, sem ég hef bara upplifað áður á Kúbu. Hér er líka lítið um kristið fólk, því um 90% íbúanna eru múslimar. Það er líka augljóst af klæðaburði kvenna að íhaldssemin er umtaslvert meiri. Allar konur ganga í einhvers konar kufli og flestar sýna mjög takmarkað af andlitinu. Allar eru með slæður um hárið, en svo má segja að um 50% sýni allt andlitið á meðan að hinn hlutinn sýni bara augun. Semsagt í svörtum kufli frá toppi til táar með smá op fyrir augun. Ég hef reyndar líka séð talsvert mikið af stelpum sem eru með allt andlitið hulið – og sjá þá væntanlega bara vegna þess að svarta efnið er hálf gagnsætt. Það er ansi magnað að sjá þetta á götum úti.

En fólkið er líka ótrúlega vinalegt. Ég ætla ekki að fella neina dóma um Sýrland fyrr en ég hef verið hérna lengur, en fyrstu kynni lofa afskaplega góðu. Já, og svo er það hressandi að geta labbað á milli götuhorna án þess að sjá hermenn vopnaða AK-47 rifflum á nokkurra metra fresti.

Skrifað í Hama, Sýrlandi klukkan 21.11