Mið-Austurlandaferð 8: Veikindi og vestræn þægindi í Amman

Heyriði, hérna að neðan eru komnar inn tvær færslur og ekki eitt einasta helvítis komment! Þetta er agalega slappt. Ég geri allavegana ráð fyrir því að íslam færslan mín hafi verið rétt, þar sem enginn hefur kommentað á hana með leiðréttingum.

Allavegana, ég er komin til Amman í Jórdaníu og hef verið hérna í rétt rúman sólahring. Síðustu tveir sólarhringar hafa verið skrautlegir.

* * *

Ég er búinn að vera fárveikur í dag. Ég veit ekki hvort það er uppsöfnuð matareitrun, sushi-ið sem ég borðaði í gær eða flaskan af hvítvíni sem ég drakk með matnum. Það sem ég veit er að ég vaknaði í rúminu mínu klukkan 4 í morgun við það að bænakallarar í moskunni byrjuðu morgunbænirnar sínar og var þá með brjálaðan hausverk og hrikalega magapínu.

Dagurinn í dag hefur því verið nánast óbærilegur. Ég byrjaði á því að staulast útaf hótelinu um klukkan 9 og gerði örvæntingarfulla leit að Starbucks stað, því ég hef ekki fengið annað en arabískt kaffi síðustu daga. Ég fann hann og borðaði morgunmat þar, en leið samt ömurlega. En skyldurækni mín sem túristi er oft mögnuð og ég ákvað þrátt fyrir veikindin að fara í dagsferð til Jaresh rústanna. Eina sem ég gerði aukalega útaf veikindunum var að ég fór í loftkældum leigubíl í stað rútu.

Jerash eru þrjú hundruðustu rómversku rústirnar sem ég sé á þessu ferðalagi og segi ég þetta nú gott af rómverskum súlum. Borgin var uppá sitt besta á árunum blah blah og blah blaaaah! Nei, ég segi svona.  Ég er svona neikvæður því ég var alveg hræðilega slappur í Jerash og meikaði varla að skoða alla staðina. Ekki hjálpaði að hitinn var nánast óbærilegur, um 35 stig í sól sem er of mikið fyrir fárveikan (og fullan af sjálsvorkun) Einar. Eftir þetta fór ég heim á hótel og sofnaði. Vaknaði svo um klukkan 5 og tók þá við röð af vestrænum þægindum hér í borg, sem ekki var hægt að nálgast á Sýrlandi.  Fór fyrst og borðaði á McDonald’s, fór svo í bíó á Iron Man (sem er góð) og slappaði svo af í leðursófa á einhverjum lúxuhótelsbarnum.  Kom svo hingað heim á mitt skítuga og ódýra hótel fyrir smá stundu.

Hótelið sem ég er á er þó nokkuð skemmtilegt.  Það er fyrir það fyrsta viðbjóðslegt, en það skiptir ekki öllu máli.  Það er einsog hótelið hafi verið innréttað árið 1930 og svo hafi hlutirnir bara verið látnir sitja.  En hótel eigandinn bætir upp fyrir þetta.  Hann var brjálæðislega hress inná skrifstofu sinni í gærkvöldi þegar að ég og Rachael komum heim úr sushi-ævintýrinu okkar.  Ég sat og spjallaði við hann í einhverja tvo tíma um ferðalög og jórdönsk stjórnmál.  Frábær kall!

* * *

Síðasta kvöldið mitt í Damaskus var gott.  Suzie, önnur bandaríska stelpan, var á fullu í arabísku tíma um kvöldmatarleytið, þannig að ég og Rachael (hin bandaríska stelpan) ákváðum að skella okkur útað borða á stað sem reyndist bjóða uppá guðdómlega góðan mat.  Ég borðaði grillað sýrlenskt lambakjöt, sem var stórkostlegt (take that!, Guðni Ágústsson!) borið fram með besta hummus-i sem ég hef fengið í ferðinni (og hef ég nú borðað hummus á hverjum degi í þessari ferð) og fersku, nýbökuðu khubz brauði sem var himneskt!

Við kíktum svo heim á gistiheimili, drukkum hvítvín og reyktum nargileh með fólkinu þar.

Ég og Rachael (sem erum bara vinir, bara svo það sé alveg á 110% hreinu) ákváðum svo að samræma plönin okkar og fara saman í gær.  Við ætluðum að fara til Golan hæða, Bosra og svo yfir til Amman.  Það reyndist skrautlegt.

Við byrjuðum á því að fara í innanríkisráðuneytið og sækja um leyfi fyrir Golan hæðirnar, en þar var bílstjóranum okkar (sem talaði ekki orð í ensku) sagt eitthvað, sem olli því að hann ákvað að fara með okkur beint til Quneitra, sem er borgin sem að Ísraelar lögðu í rúst eftir Yom Kippur stríðið.

Áður en við komum þangað fórum við inná sýrlenska herstöð.  Þar var okkur vísað inní aðalherbergið, þar sem voru hvorki fleiri né færri en 4 sýrlenskir hershöfðingjar, sem virtust vera mjööög hátt settir og þar af einn hershöfðingi sem að gat talað í tvo síma í einu fyrir aftan skrifborðið sitt.  Okkur var boðið kaffi, sem við þorðum ekki annað en að þiggja.  Svo sátum við þarna inni á meðan að hershöfðingjarnir horfðu á Al-Jazeera, þar sem akkúrat þurfti að birtast andlitið á Gerge W Bush, sem er sennilega ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim.  Eftir þetta kaffiboð stóð aðalgaurinn upp, tók í hendurnar á okkur og við fórum út.  Eftir smá reikistefnu komumst við að því að við fengum ekki leyfi til að heimsækja Golan hæðirnar.  En við fengum allavegana kaffi með hershöfðingjunum.

Það voru vissulega vonbrigði og keyrðum við því til Bosra, sem er fræg fyrir rómverkst (surprise!) leikhús.  Við skoðuðum það og fórum svo í átt að landamærunum.  Á endanum tók það okkur meira en klukkutíma að komast yfir landamærin því að bílstjórinn okkar var stoppaður og af einhverjum ástæðum mátti hann ekki fara inn til Jórdaníu, þannig að við þurftum að húkka okkur far með öðrum leigubíl.  En á endanum komumst við hingað til Amman.

Í gærkvöldi fórum við svo að borða á Vinaigrette, sem er fllottur sushi bar í Shmeisani hverfinu í Amman.  Þar hittum við fyrir gaurinn sem var með okkur í leigubílnum, en hann er bandarískur Harvard nemi sem talar arabísku og er að skrifa doktorsritgerðina sína um Líbanon.  Yfir sushi-inu og hvítvíninu fengum við svo stórkostlegan fyrirlestur um ástandið í Líbanon, sem færði mig kannski aðeins nær því að skilja eitthvað í þessu flókna landi.

Annars er ég alltaf að hitta alveg ótrúlega klárt og skemmtilegt fólk hérna.  Ég er búinn að ferðast með tvítugri stelpu, sem er að læra í Yale og talar arabísku, borða með þessum doktorsnema, drekka hvítvín og spjalla um stelpur með rithöfundi sem hefur gefið út vel heppanaðar bækur í USA, drukkið kaffi með jórdönskum hóteleiganda sem hefur ferðast um hálfan heiminn og svo framvegis.  Ég get ekki kvartað.

Á morgun er stefnan að fara í fótbspor Móses á Nebo fjalli og baða mig í Dauða Hafinu.

Skrifað í Amman, Jórdaníu klukkan 21.00