Mið-Austurlandaferð 18: Endalok

Ég er kominn heim.  Kom í gærkvöldi með flugi frá London eftir að hafa eytt einum degi þar í að versla og hitta systur mína.

Er að henda myndunum inná tölvuna mína – þær eru sennilega hátt í þúsund talsins og því mun taka tíma að laga þær og flokka.  Þessa fyrir neðan tók ég í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu.  Þarna er ég að horfa á sólsetur yfir eyðimörkinni, sem var gríðarlega fallegt (myndavélinni var stillt upp á steini – smellið til að sjá stærri útgáfu)

Horft á sólsetur í Wadi Rum

Þetta var frábær ferð. Sennilega besta ferðalag, sem ég hef farið í síðan ég ferðaðist með vinum mínum um Suður-Ameríku fyrir 10 árum. Algjörlega ógleymanlegir staðir, yndislegt fólk, ótrúlegur matur og frábært veður hjálpaði til við að gera ferðina svona vel heppnaða.

Hápunktarnir:

  • Sýrlendingar – Vinalegasta fólk, sem ég hef kynnst
  • Jerúsalem – ótrúleg borg með milljón merkilegum stöðum
  • Stelpur í Tel Aviv
  • Damaskus – yndisleg borg, sem að alltof fáir heimsækja. Umayyad moskan ein og sér nægir sem ástæða fyrir heimsókn, en þegar maður bætir við lífinu, fólkinu og matnum þá er það orðinn frábær pakki.
  • Götumatur í Ísrael – Shawarma laffa var það fyrsta sem ég lærði í hebresku. Ótrúlega góður matur, sama hversu veitingastaðirnir voru shabby.
  • Baalbek í Líbanon – Skemmtilegustu rómversku rústirnar
  • Petra í Jórdaníu – Ótrúlegar fornminjar

Þrátt fyrir að eiginlegri ferðasögu sé hér með lokið, þá á ég eftir að skrifa eitthvað meira um þetta ferðalag á næstu vikum.  Það eru nokkrar sögur ósagðar og svo langar mig líka til að skrifa um pólitík og trúmál tengd þessari ferð – og eins almennar ráðleggingar varðandi ferðalög til þessara landa. Hvort ég hef orku til þess að klára þau skrif veit ég ekki.  En ég mun allavegana setja inn myndir á næstu dögum eða vikum.

Það frábæra við þessi ferðalok er líka að mér líður ótrúlega vel við heimkomu varðandi mitt líf.  Eftir síðustu ferðalög hef ég alltaf komið heim fullur efasemda um það hvert ég er að stefna og hvort ég sé ánægður með mitt líf.  Það að vera úti í svona langan tíma einn gerir það auðvitað að verkum að maður hugsar mikið um sinn gang.  Oft hef ég því komið heim ákveðinn í að breyta öllu í mínu lífi.

En núna við heimkomuna er ég sáttur við hvert ég stefni.  Vinnan virðist hafa tilgang og ég sé hvert ég stefni þar.  Og í einkalífinu finnst mér hlutirnir líka vera á réttri leið.  Þannig að eina áhyggjuefnið við heimkomu er að ná af mér einu eða tveimur aukakílóum, sem fylgdu því að borða shawarma, endalaust af arabísku brauði og öðru góðgæti.  

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að lesa þessar ferðasögu. Ég vona allavegana að mér hafi tekist að koma því á einhvern hátt til skila hversu frábært þetta ferðalag, þessir staðir og þetta fólk voru.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan 23.14