iPhone 2.0

Ég er búinn að uppfæra iPhone símann minn í kerfi 2.0. Þökk sé Tobba, sem hafði þolinmæði í að ganga í gegnum hvert skref með mér í uppfærslunni. Þetta var ekki svo flókið, en þó festist ég alltaf í sama hlutanum.

Þessi uppfærsla breytir ansi miklu. Fyrrir það fyrsta, þá uppfærast dagatöl og kontaktar nú sjálfkrafa á milli tækjanna minna. Ég vinn á Macbook Pro fartölvu í vinnunni, á iMac borðtölvu heima og svo á iPhone þegar ég er á ferðinni. Núna uppfærast þessir hlutir á milli tækjanna sjálfkrafa, sem er gríðarlega þægilegt. Um leið og ég skrái einhvern atburð á dagatalið í símanum mínum, þá uppfærist dagatalið í tölvunum mínum sjálfkrafa.

(svona lítur síminn út eftir uppfærsluna)

Í öðru lagi, þá býður 2.0 kerfið uppá að maður geti keypt sér forrit í símann. Ég er strax búinn að setja inn nokkur skemmtileg forrit. Fyrst var auðvitað OmniFocus, sem að gerir mér kleift að sync-a OmniFocus listana mína á milli tölva og símans. OmniFocus á iPhone er einnig ótrúlega sniðugt því það veit hvar ég er stadur. Þannig að þegar ég er á skrifstofunni minni, þá veit forritið (af því að ég er búinn að kenna því hvar ég er) hvaða hluti ég á að gera þar. Þetta er nánast ólýsanlega þægilegt.

Auk OmniFocus sett ég inn Texas Hold Em póker leik frá Apple, sem er snilld og svo minni forrit einsog Remote frá Apple, sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í tölvunni úr símanum og svo forrit fyrir Twitter og Facebook.

* * *

Helgin var algjörlega frábær. Fór útað borða á æðislegum stað, fór í sund í sólinni, borðaði ís, grillaði með vinum mínum, fór í frábært partí og á djammið, borðaði þynnkumat með vinum og eitthvað fleira. Þessi júlí mánuður er búinn að vera svo fáránlega skemmtilegur að það er með hreinum ólíkindum. Ég er búinn að setja nokkrar myndir frá helginni inn á Facebook.

* * *

Af fimm vinsælustu fréttunum á mbl.is, þá fjallar ein um Jessicu Simpson, önnur um stolið hjólhýsi og sú þriðja um Mercedes Club. Ég veit ekki hvort mér finnst þetta fyndið eða sorglegt.

* * *

Ég verð að játa að ég er alvarlega að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Mín EOS 20D er orðin fjögurra ára gömul og þótt að hún sé vissulega enn frábær vél, þá fæ ég samt smá græjulosta við að skoða nýjustu Nikon vélarnar, hvort sem það er D300 eða D700. Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við mína vél er hversu illa hún höndlar það að taka myndir í lítilli birtu. Það virðist vera einn af helstu kostunum við Nikon vélarnar hversu vel þær glíma við litla birtu.

Ég hef alltaf notað Canon, en er svo sem ekki fastur í mikilli fjárfestingu í því merki. Á ekkert flass og eina linsan sem ég á aukalega er 50mm linsa. Svo er ég á leið til Bandaíkjanna í ágúst og það gæti verið kjörið tækifæri fyrir slík græjukaup.

Hefur einhver reynslu af þessum Nikon vélum og veit hvernig þær eru miðað við mína vél?