Hræðsluáróður

Ég fjallaði fyrir nokkrum mánuðum um þessa bloggfærslu hjá Baldri McQueen. Í ljósi umræðunnar er ekki úr vegi að rifja hana upp. Í færslunni rifjar hann upp hræðsluáróður EES andstæðinga, sem þeir þuldu upp áður en við skrifuðum undir þann samning. Sami hræðsluáróðurinn er að mörgu leyti endurunninn í dag þegar að talað er um fulla aðild að ESB.

Vonbrigði dagsins eru án efa það að Vinstri Grænir haldi sig við fulla andstöðu sína við ESB aðild. Þeir sleppa því líka (að því er mér sýnist) algerlega að tala um gjaldeyrismál – einsog það sé ekki stærsta hagsmunamál Íslendinga. Tillaga Vinstri Grænna í ESB málum snýst um tvöfalda kosningu. Að við kjósum um það hvort að við ætlum að semja. Sú kosningabarátta verður án efa kostuleg. Hörðustu andstæðingarnir munu þar gera allt í sínu veldi til að sverta ESB og gera allt til þess að fólkið fái ekki að sjá hverjir raunverulegu kostirnir eru. Menn myndu fyrirfram gefa sér sínar forsendur fyrir niðurstöðum samningaviðræðna sem væru ekki einu sinni hafnar.

Það jákvæða er þó að Sjálfstæðismenn virðast vera að komast á þá línu að aðildarviðræður séu skynsamasta leiðin og svo að þjóðin fái að kjósa um aðildina. Það er auðvitað það eina réttmæta. Við eigum skilið einsog allar hinar Norðurlandaþjóðirnar að fá að kjósa um aðild að ESB.