Hræðsluáróður hægri manna

Það er magnað að fylgjast með atburðunum á Íslandi.

Eitt fyndnasta við þetta allt eru viðbrögð margra hægrimanna, til dæmis flestra sem eru vinir mínir á Feisbúk. Þau eru á þá leið að víst að nú sé komin vinstri stjórn á Íslandi *þá* fari allt til fjandans. Alls konar klysjur um að hækki skattar og að einkaframtakið verði kramið og bla bla bla. Ég hef séð einhver 10 status skilaboð á Feisbúk um að fólk hyggist flytja til útlanda þar sem að vinstri stjórnin muni fara með allt til fjandans. Ekki ósvipað og [hér](http://fridjon.eyjan.is/2009/01/27/vont-fyrir-island-gott-fyrir-sjalfstaedisflokkinn/) og [hér](http://katrin.is/?t=athugasemdir&nid=7686).

Hvað í ósköpunum veldur þessum hroka hjá hægrimönnum, sem halda að þeirra flokkur sé einn hæfur til þess að stjórna? Yfir hverju geta þeir eiginlega montað sig í dag?

Áður fyrr voru aðallega tveir hlutir sem að hægri menn notuðu til þess að hræða fólk frá því að kjósa yfir sig vinstri stjórn á Íslandi. Fyrst það að hægrimönnum væru einum treystandi til að sjá um ríkisfjármálin. Þessa vitleysu hefur nýhættum forseta Bandaríkjanna og svo Sjálfstæðismönnum hérna heima svo sannarlega tekist að afsanna. Svo var það glundroðakenningin um að stjórn væri bara starfhæf ef að Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd. Þetta hafa Sjálfstæðismenn í Reykjavík afsannað með stórkostlegum glæsibrag á þessu kjörtímabili.

Þannig að ég segi við Sjálfstæðisflokks-elskandi vini mína: Þið hafið ekki efni á þessu. Ykkar flokkur og ykkar stefna kom okkur í þá stöðu, sem við erum í. Það má vel vera að vinstri stjórn eigi eftir að lenda í vandræðum, en hún getur varla klúðrað málunum á verri hátt en sú sem er að fara frá.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað öllu á Íslandi frá því að ég fermdist. Það er löngu kominn tími á að aðrir fái að stjórna landinu.