Hvert stefnir Eyjan?

Ég verð að játa að ég átta mig ekki lengur á því hvernig blogg eru valin á Eyjuna.

Eyjan er ein af þeim síðum, sem ég les frekar mikið og þarna eru nokkur ágætis blogg einsog hjá félaga Andrési, Árna Snævarr, Agli Helga, Freedomfries og Margréti Hugrúnu. Það er augljóst að um leið og blogg fara inná Eyjuna þá aukast vinsældirnar umtalsvert, einsog Margrét Hugrún talaði meðal annars um í einhverju bloggi, sem ég nenni ekki að leita að.

Ég hélt að stefnan væri að hafa þarna gæðablogg – að safna saman fólki sem skrifar vel og oft. Það getur ekki hver sem er stofnað blogg á Eyjunni, heldur þarf maður væntanlega að sækja um slíkt.

Síðustu vikur hefur Eyjan þó breyst í ansi einkennilega framboðssíðu fyrir valda einstaklinga. Hver var til dæmis tilgangurinn með að bjóða Páli Magnússyni og Sigmundi Davíð að blogga á Eyjunni? Þeir hættu báðir að blogga nánast strax eftir formannskjör Framsóknar (annar hætti 15.jan, hinn 17.jan nema að þeir séu bara í pásu fram að prófkjöri). Páll bloggaði í um 5 vikur, Sigmundur í innan við viku!

Núna eru prófkjörin að byrja í flokkunum og þá allt í einu bætast inn á Eyjuna bloggsíður hjá tveimur stelpum, Bryndísi framsóknarstelpu og Erlu Óskar SUS-ara. Ég geri ráð fyrir að þær síður verði einsog síður framsóknarmannnanna í formannsslagnum – lítið nema létt auglýsing í aðdraganda kosninga. Þetta eru eflaust ágætar stelpur, en ég efast um að skyndilegur blogg áhugi þeirra tengist einhverju öðru en væntanlegu prófkjöri. Hverju bæta slík blogg við Eyjuna?

Að mínu mati ætti Eyjan að fókusera á nokkra góða bloggara en sleppa því að blanda sér í prófkjörin með því að bjóða til sín ákveðnum frambjóðendum. Eða ætla þeir að opna síðuna fyrir öllum, sem eru á leið í framboð? Þá held ég nú að lestur minn á þeirri síðu muni minnka all verulega.

* * *

Já, og svo legg ég til við frambjóðendur sem eru á svipuðum aldri og ég: Þið þurfið ekki að vera í dökkum jakkafötum með bindi á framboðsmyndinni. Það eru engin lög sem skipa til um það. Einsog andinn í þjóðfélaginu er þessa stundina, þá væri ég allavegana miklu frekar til í að kjósa einhvern sem væri aðeins afslappaðari í klæðaburði. En kannski er það bara ég.

* * *

(Og til að taka fram, þá vil ég ekki vera á Eyjunni og hafnaði m.a. samstarfi Liverpool bloggsins og síðunnar fyrir einhverjum mánuðum)