Allir ættu að horfa á The Office

Ég lenti í samtali um jólin og svo í öðru samtali við góðan vin minn mjög nýlega, sem komu mér gríðarlega á óvart. Ég komst nefnilega að því að það horfa ekki allir á The Office!

Fyrir okkur hin, sem horfum á The Office í hverri viku, er erfitt að ímynda sér þetta. Ég held að partur af ástæðunni gætu verið fordómar gagnvart bandarísku sjónvarpsefni. Hinir tólf bresku þættir sem voru framleiddir voru svo stórkostlegt sjónvarpsefni að ég hélt að þeir yrðu aldrei toppaðir og þegar ég sá fyrstu þættina í bandarísku seríunni þá fannst mér þeir svo slæmir að það var nánast pínlegt.

dwight-andy

En The Office var, þrátt fyrir daufa byrjun, haldið áfram í framleiðslu og núna er að ljúka í Bandaríkjunum fimmtu seríunni. Þættirnir hafa á þessum 5 árum styrkst gríðarlega (með smá lægðum inná milli þó) og serían, sem nú er að klárast, er að mínu mati sú besta. Þetta eru einfaldlega bestu grínþættirnir í sjónvarpi í dag. Karektarnir eru nánast allir frábærir, jafnt þeir sem skipta mestu máli uppá grínið (Michael, Dwight og Andy) til þeirra sem koma fram kannski einu sinni í þætti (Kelly, Creed, o.s.frv).

Þannig að skilaboð mín til ykkar eru einföld. Horfið á The Office. Þetta eru stórkostlegir þættir og fólk hefur enga ástæðu til að horfa ekki á þá. Ég skil það alveg þegar að fólk segir við mig að það horfi ekki á LOST (sem eru hinir uppáhaldsþættirnir mínir) en fyrir því að horfa ekki á The Office eru engar afsakanir.