Næsta stopp: Indónesía

534390110_1939dca421Það er komið meira en ár síðan að ég kom heim úr Mið-Austurlandaferðinni minni og því ekki seinna vænna en að byrja að huga að næsta ferðalagi.

Það hefur margt breyst á þessu ári síðan ég kom heim frá Tel Aviv. Fyrir það fyrsta þá er ég kominn með bestu kærustu í heimi og það þýðir að ég mun ekki fara í þetta ferðalag einn. Svo bý ég líka í Stokkhólmi, sem gerir manni auðveldara að finna ódýr flug til allra staða.

Við Margrét erum búin að ræða aðeins um það hvert okkur langaði að fara. Við vildum fara á stað þar sem hvorugt okkar hafði komið og við vildum stað þar sem að væri gott að vera í ágúst. Margrét byrjar í skóla í lok ágúst og því þurftum við að skipuleggja ferðalagið í kringum það.

Fyrir valinu varð svo Indónesía.

Ég hef ekki pælt neitt sérstaklega mikið í Indónesíu í gegnum tíðina, en fyrir þessa tímasetningu (bæði dagsetningu og lengd – 4 vikur) og fyrir það sem við vildum í fríinu okkar þá virtist hún vera nánast fullkomin.

Það þekkja eflaust allir frábærar strendur á Bali, en við erum líka ótrúlega spennt fyrir að sjá magnaða hluti á Jövu einsog Borobodur, sem hefur verið ofarlega á listanum mínum lengi, Gunung Bromo og fullt af fleiri stöðum.

Það er dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað maður hefur tíma fyrir á Indónesíu þar sem að ferðalög á milli staða eru oft flókin (Indónesía er samansafn af gríðarlegum fjölda eyja og því þarf maður oft að fara með ferjum), en við ætlum okkur allavegana að sjá Jövu, Bali, Lombok og Flores (þar sem við getum vonandi kafað). Ef við höfum einhvern tíma, þá langar okkur að fara líka til Borneo. En þetta eru hlutir sem við munum sennilega ekki ákveða fyrr en við komum á staðinn.

Við erum búin að kaupa beint flug til Bangkok. Það kostaði um 6.000 sænskar krónu hver miði. Þaðan munum við svo taka AirAsia flug til Jakarta sennilega. Þau flug eiga að vera ódýr. Að ferðast um og lifa í Indónesíu í nokkrar vikur á svo að vera mjög ódýrt.

Planið er að leggja af stað 23.júlí. Ef þið hafið einhverjar ábendingar varðandi það hvað við eigum að sjá, þá eru þær vel þegnar.

(mynd fengin [héðan](http://www.flickr.com/photos/maggi_homelinux_org/534390110/))