Landakort

Í gesta/tölvu/lærdóms herberginu okkar hérna á Götgötunni er ég búinn að hengja upp heimskort og byrjaður að setja pinna fyrir þá staði, sem ég hef komið á (bláir pinnar fyrir mig, rauðir fyrir Margréti).

Ég hef lengi ætlað að framkvæma þessa hugmynd. Ég man alltaf eftir atriði úr The Mask (þessari frá 1985) þar sem að aðalkarakterinn hafði merkt inná Bandaríkjakort þá staði sem honum langaði til að heimsækja. Fyrir nokkrum árum fékk ég þá flugu í höfuðið að ég yrði að setja upp svona kort með þeim stöðum, sem ég hef komið á.

Þannig að ein af fáum kröfum mínum varðandi innréttingar hérna í íbúðinni var sú að setja í eitt herbergið upp svona kort. Ég pantaði það fyrir einhverjum vikum frá Bandaríkjunum og lét setja það á mjúkan bakgrunn hérna í Stokkhólmi og núna er það loksins komið upp.

Kortið er risastórt (sennilega um tveir metrar á lengd) og það er magnað að sjá hversu gríðarlega stóran hluta heimsins maður hefur aldrei komið nálægt. Ég hef heimsótt mjög stóran hluta Ameríku (flestallt merkilegt í Bandaríkjunum og alveg niður til Buenos Aires í Argentínu – en þó lítið fyrir sunnan og norðan þá staði). Og svo hef ég heimsótt stóran hluta Evrópu. En utan þess hef ég ekkert komið til Afríku, langstærsta hluta Asíu, Eyjaálfu og allra litlu eyjanna í Kyrrahafi. Það er nóg eftir að sjá.