Tölvan mín deyr

Síðustu 3 ár hef ég notað sömu fartölvuna, 15 tommu Macbook Pro (sjá mynd). Ég hef notað hana í vinnunni á hverjum einasta degi í marga klukkutíma og hún hefur reynst mér alveg fáránlega vel – hún hefur aldrei bilað (ég hef skipt um batterí í henni einu sinni) og eftir að ég setti upp Snow Leopard á henni og hreinsaði hana algjörlega í september þá hefur hún verið alveg fáránlega spræk. Helsti galli hennar var að rafhlaðan entist bara í um klukkutíma, sem er auðvitað fáránlega stutt.

Fyrir akkúrat viku var ég á leið heim úr vinnunni og hafði eftir smá áfengissmökkun þar tekið með mér flösku af margaríta mixi til að prófa betur heima (þetta var í alvöru vinnutengt). Það fór ekki betur en svo að mixflaskan opnaðist í töskunni og yfir tölvuna mína flæddi um líter af margarítu mixi. Ég hljóp heim og reyndi að þrífa hana, en það fór svo að ég gat ekki kveikt á henni aftur. Ég fór því með hana í viðgerð á mánudaginn í Apple búð nálægt skrifstofunni minni, en í dag fékk ég svo símtal um að tölvan væri beisiklí ónýt. Skjárinn er ónýtur, lyklaborðið, minnið og eitthvað fleira (einhver sænsk tækniorð sem ég skildi ekki alveg). Viðgerðin átti að kosta umtalsvert meira en ódýrasta fartölvan frá Apple kostar ný útúr búð. Gögnunum tókst þó að bjarga, enda var harði diskurinn í lagi.

Því er nú komið að því að kaupa nýja fartölvu í fyrsta sinn í þrjú ár. Ég er auðvitað búinn að vera forfallinn Apple nörd megnið af mínu lífi þannig að annað kemur ekki til greina. Ég þekki auðvitað allar tölvurnar frá þeim og hef verið að hugsa síðustu mánuði um að kannski væri kominn tími til að uppfæra tölvuna, aðallega vegna þess hve batteríin í nýju vélunum eru orðin góð.

Ég er nokkuð ákveðinn í að kaupa mér Macbook Pro – ekki Air. Ég nota tölvuna 99% bara í vinnunni og myndir og slíkt er á heimilistölvunni, þannig að ég hef svo sem ekki mikla þörf fyrir mikinn kraft – en ég bara er ekki að fíla að Macbook Air sé bara með 2gb af minni. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér þeim möguleika að setja Flash drif í staðinn fyrir venjulegan harðan disk. Ég hef lesið nokkuð mikið um það og þeir sem hafa gert slíkt segja að það sé algjör bylting því að forrit hlaðist upp á sekúndubrotum. Þar sem þetta er bara vinnutölva og engar myndir eða tónlist á henni þá ætti mér að nægja 128gb (það er líka stærðin á disknum á ónýtu tölvunni og það var í fínu lagi – held að aðeins 50gb hafi verið full). Mér sýnist þó Apple selja sín SSD drif ansi dýrt. Ég sá strax Intel X25-M 160gb drif á um helmingi lægri upphæð en Apple selur sitt SSD drif. (ég mislas verðin hjá Apple – þau voru ekki svo slæm).

Núna er ég aðallega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að kaupa tölvu 13″ eða 15″ skjá. Ég hef vanist að nota 15″, en sú tölva er stærri og þyngri (2,5kg vs 2) en 13″ vélin og þar sem ég er með tölvuna á mér mestallan daginn (og tek hana heim með mér) þá skiptir þyngdin máli. Kostur við stærri tölvuna er líka að hana er hægt að fá með möttum skjá, sem ég held að ég muni fíla betur (gamla tölvan var með möttum skjá).