Opnun í Sundbyberg

Við opnuðum Serrano staðinn í Sundbyberg á föstudaginn.  Einsog nánast alltaf var ekki allt 100% klárt á slaginu 10.  Maturinn var ekki enn kominn allur fram í borð og afgreiðslukassinn var í ólagi.  Ég var smá stressaður og eftir að ég hafði hengt upp blöðrur fyrir utan staðinn þá var ég við hurðina tilbúinn að segja fólki að við værum ekki alveg tilbúin og myndum opna eftir smá stund.

Staðurinn að utan á föstudagskvöld

En það kom enginn fyrr en um hálf ellefu þegar að allt var tilbúið.  Stuttu seinna hópaðist svo fólkið inn og ég áttaði mig fljótt á því að ég þyrfti að hjálpa til.  Ég tók mér því stöðu við uppþvottavélina og stóð í uppvaski allt hádegið.  Við notum alvöru diska, hnífapör og glös á staðnum þannig að uppvaskið er ansi tímafrekt.  Einnig þá áttum við mjög fá eintök af sumum hlutum og því þurfti uppvaskið að vera í gangi allt hádegið.

Þetta var rosalega skemmtilegt.  Þetta fyrsta hádegi seldum við 130 manns mat án þess að hafa auglýst neitt.  Við bara tókum niður merkingarnar úr gluggunum og opnuðum hurðina.  Þetta var því frábær byrjun.  Helgin var rólegri, en hádegið í dag var svo aftur rosalega gott.  Á næstu dögum byrjum við svo að auglýsa staðinn, þannig að þetta byrjar allt saman mjög vel.