Næsta stopp: Egyptaland

Þar sem að ég sit núna heima með kvef, hálsbólgu og slíkt og úti í morgun var 22 stiga frost í Stokkhólmi þá er ekki laust við að manni dreymi um aðeins meiri hita og sumar. Þessi vetur hérna í Stokkhólmi er búinn að vera með eindæmum slæmur, sá verst í 25 ár heyrði ég einhvers staðar.

Það er allavegana ljóst að veturinn er umtalsvert harðari en sá síðasti. En það er vonandi að sumarið bæti þetta upp því við Margrét hyggjumst eyða sumrinu í Svíþjóð og fara ekki í lengri ferðalög einsog við gerðum í fyrra, heldur njóta Stokkhólms og fara kannski í styttri ferðir.

En í janúar þegar ég var um það bil að verða geðveikur á myrkrinu og kuldanum þá ákváðum við að panta okkur ferð til Egyptalands um páskana. Til að byrja með var hugmyndin að fara bara í einhverja pakkaferð á sólarströnd. Svo örvæntingarfullur var ég orðinn eftir sól að mér fannst það vera farið að hljóma einsog góð hugmynd.

En þegar við fórum að spá betur í þessu þá ákváðum við að fara í aðeins metnaðarfyllri ferð. Við munum því yfir páska vera í 10 daga í Egyptalandi. Við byrjum á því að fljúga til Kaíró (via Amsterdam) þar sem við verðum í 4 daga, sem ætti að vera passlegur tími til að sjá Píramídana og allt það helsta í þeirri borg. Þaðan tökum við rútu til Alexandríu þar sem við ætlum að vera í 2 daga og svo munum við enda á 5 dögum í túristabænum Sharm El-Sheikh. Þar er aðalspennan fyrir köfun, enda þykir köfun í Rauða Hafinu þar í kring vera frábær. Einnig er hægt að fara í ferðir uppá Sinai fjall, svo að það er nóg að sjá.

Þetta er planið. Við spáðum í því að reyna að sjá enn meira (Luxor og nágrenni til dæmis) en ákváðum að hafa einhvern tíma á ströndinni líka. Þetta er ágætis blanda af menningu og strönd.

Ef einhverjir hafa punkta um Kaíró og þessa staði sem við nefnum þá væru þeir vel þegnir. Ég hef auðvitað ekki komið til Egyptalands, en ég hef verið ansi aktívur í múslimalöndum að undanförnu (síðustu tvö stóru ferðalög hafa verið til Sýrlands, Jórdaníu, Líbanon, Ísrael og Indónesíu).

Mynd fengin héðan.