Ég á FerðaPressunni + topp 5 áfangastaðir

Þar sem ég er svo latur við að blogga þá er ekki úr vegi að vísa á þetta viðtal við mig á Ferðapressunni.

Þar var ég meðal annars beðinn um að velja topp 5 merkilegustu staðina sem ég hef heimsótt. Ég var í smá vandræðum með það val, en á endanum valdi ég þetta (ekki í neinni sérstakri röð)

Jerúsalem, Ísrael
„Jerúsalem er stórkostleg borg og einn helgasti staður kristinna manna, gyðinga og múslíma. Hvort sem þú ert trúaður eða ekki, þá er ótrúleg upplifun að sjá allt þetta fólk og þá trúaratburði sem þarna fara fram. Borgin er afar lifandi og skemmtileg. Ekki síst vegna þess að hún er alvöru borg sem fólk býr í en ekki safn.“

Iguazu fossarnir, Argentína
„Þetta eru ótrúlegustu fossar í heimi. Þeir eru gríðarlega stórir og hægt að fara að þeim bæði frá Brasilíu og Argentínu. Ég eyddi tveimur dögum í það að skoða þessa fossa en hefði hæglega getað verið þarna mun lengur.“

Machu Picchu, Perú
„Ég og þrír vinir mínir úr Verzló fórum í sex mánaða ferðalag um S-Ameríku eftir stúdentinn. Meðal annars gengum við í þrjá daga eftir gamalli inkaslóð til þess að komast upp að Machu Picchu í Perú, hinni týndu borg Inkanna. Þetta var áður en maður þurfti að leigja sér leiðsögumann í ferðina og því löbbuðum við þetta einir, sem var ógleymanlegt. Það er ástæða fyrir því að Machu Picchu er vinsæll ferðamannastaður. Þetta er einfaldlega stórkostlegur staður og alls ekki ofmetinn.“

Angkor Wat, Kambódía
„Angkor er samansafn af musterisleifum frá 12.öld. Á gríðarlega stóru svæði eru alls um 1.000 hof. Ég tók þrjá daga í það að fara um svæðið. Þarna er allt frá hinu stórfenglega Angkor Wat hofi, þar sem þúsundir túrista mæta daglega til þess að sjá sólarupprás, til lítið heimsóttra mustera þar sem maður getur labbað einn um og liðið eins og Indiana Jones.“

Grand Canyon, Bandaríkin
„Það er dálítið erfitt að lýsa Grand Canyon. Allir hafa séð bíómyndir sem sýna eða lýsa þessu ótrúlega gljúfri. Það að standa í fyrsta skipti fyrir framan það er dálítið einsog að koma til New York í fyrsta skipti – maður kannast við allt eftir að hafa séð hlutina í ótal kvikmyndum en samt er upplifunin ógleymanleg.“

En allavegana, í viðtalinu tala ég líka almennt um ferðalög.