Pressan.is – MYNDIR

Ég skil ekki alveg þessa frétt hjá Pressunni: Hvað varð um fallega hverfið mitt? Allt að brotna niður og borgin gerir ekkert – MYNDIR

Þarna tekur Pressan þessa frábæru bloggfærslu, vitnar í tvo hluti úr henni og setur svo inn allar myndirnar á sitt vefsvæði. Það er nákvæmlega engu bætt við upphaflega bloggfærslu. Að vísu er talað um hver Bjarni er, en það eru allt upplýsingar, sem eru mjög aðgengilegar á síðu Bjarna.

Þetta er hluti af einkennilegri hegðun sem ég sé bara á íslenskum vefsíðum – að í stað þess að vísa bara á upphaflegu heimildina, þá er allur textinn afritaður yfir á viðkomandi vefsvæði og ekki einu sinni hafður með tengill í upphaflega grein. Og oft á tíðum er engu bætt við upphaflegt efni greinarinnar. Þetta er stundað grimmt til dæmis á Eyjunni.

Af hverju er ekki bara látið nægja að vísa í upphaflega heimild? Halda menn að lesendur séu svona latir eða að þeir geti ekki lesið efni, sem er ekki nákvæmlega eins uppsett og allt hitt efnið á viðkomandi síðu? Eða að fólk viti ekki hvernig tenglar yfir á önnur vefsvæði virki?