Stokkhólms hálf maraþonið

Hálf maraþonið í gær var hálf skrautlegt. Ég reyndi að passa mig á því fyrir hlaupið að undirbúa mig á sama hátt og ég hafði undirbúið mig fyrir lengri hlaup að undanförnu – borðaði nokkurn veginn það sama og aðalmunurinn á hlaupinu í gær og lengri hlaupum að undanförnu átti að vera sá að ég var talsvert betur úthvíldur fyrir hlaupið í gær.

Mér leið því vel þegar ég mætti niður á Gamla Stan um fjögur leytið í gær. Þar sem ég hef ekki hlaupið áður opinberlega og á engan tíma, þá lenti ég mjög aftarlega í rásröðinni. Ég var í starthóp F, sem þýddi að um 8.000 hlauparar fóru af stað á undan mér (af um 10.000 hlaupurum, sem tóku þátt. Ég ætlaði að hlaupa á milli 1.35-1.40 og það þýddi að ég tók framúr gríðarlegum fjölda af fólki. Það sem ég fattaði hins vegar ekki alveg var að ég var í raun fyrstu 10 kílómetrana stanslaust að taka framúr fólki, þannig að vegalengdin, sem að GPS tækið mitt mældi var á endanum um hálfum kílómetra lengri en opinber vegalengd hlaupsins, þar sem ég þurfti alltaf að taka framúr með því að fara í langar beygjur og slíkt (sjá hérna GPS mælinguna mína með korti)

Ég að hlaupa á Kungsholmen
Ég að hlaupa á Kungsholmen (sirka 10km búnir)

Allavegana, eftir um 3-4 kílómetra leið mér vel í löppum og lungum, en maginn á mér var verulega skrýtinn. Hann versnaði svo smám saman og var orðinn svo slæmur að ég var að spá í að hætta eftir um 15 km. Til að gera langa sögu stutta, þá eyddi ég eftir hlaupið öllu kvöldinu annaðhvort á klósettinu eða í fósturstellingu uppí rúmi. Þegar að Margrét fór útí apótek í morgun að sjá hvort hún gæti keypt einhver lyf sagði apótekarinn að ég hefði klárlega fengið magavírus, sem væri að ganga akkúrat núna í Stokkhólmi og gengi yfir á 2-3 dögum. Það hlýtur að vera sérstakt afrek hjá mér að fá þennan vírus akkúrat núna þegar ég var að hlaupa hálf maraþon. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla og mér leið í gærkvöldi.

* * *

Allavegana, tíminn sem ég kom á í mark var **1:44.41**.

Í fyrra þegar ég hljóp þetta sjálfur þá var tíminn 1:51:56. Þá hljóp ég auðvitað styttri hring, þar sem ég var einn og þurfti ekki að taka fram úr. Svo að þetta er bæting á meira en 7 mínútum á milli ára. Það er svosem ágætt, en ég hafði auðvitað sett markið hærra. Ég fann það líka þegar ég kom í mark að ég hafði lítið reynt á lungun og að lappirnar mínar voru í fínu ástandi (og þær eru það enn í dag). En helvítis maginn fór alveg með þetta. Ég var á ágætis millitíma í bæði 5 og 10km, en eftir um 13-14 kílómetra, þegar ég var að hlaupa leiðir sem ég hleyp oft í viku hérna á Södermalm, þá var maginn nánast að gera útaf við mig og þar versnaði tíminn umtalsvert.

Eftir mánuð ætla ég svo að prófa að hlaupa 10 kílómetra í Hässelby hlaupinu, en eftir það ætla ég að leggja hlaupa-skóna á hilluna þangað til næsta sumar.

3 thoughts on “Stokkhólms hálf maraþonið”

  1. Jæja samt til lukku með að hafa tekist á við þetta… og góður að klára þó 🙂

Comments are closed.