RÚV á Youtube!

Þar sem ég hef búið erlendis síðustu 2 árin þá hef ég talsvert horft á myndbönd á íslenskum vefmiðlum. Þetta eru engin ósköp, en svona 3-4 sinnum í mánuði langar mig að sjá eitthvað Kastljós viðtal eða aðra myndbúta – oftast eftir að 10 manns á Facebook hafa byrjað að tala um viðkomandi myndband.

Ég er líka Apple notandi og hef verið það síðustu áratugi. Það er með hreinum ólíkindum hversu aftarlega íslenskir miðlar eru í því að koma myndböndum til okkar Apple notenda. Ég hefði kannski skilið þetta fyrir einhverjum árum, en í dag eru **allir** með Apple tölvur. Í kringum mig myndi ég segja að svona 70% af því fólki, sem ég þekki og vinn með noti Apple tölvur. Eflaust hafa einhverjir smitast af mér, en það er samt fráleitt að halda því að Apple notendur séu einhver jaðarhópur auk þess sem að Apple selur vinsælasta farsímann í dag.

Samt er RÚV ennþá að notast við einhverja útgáfu af Windows Media Player, sem virkar ómögulega á Apple tölvum – og alls ekki á iPhone eða iPad.

Vísir uppfærði sitt kerfi nýlega og þeir enduðu með eitthvað Flash dót, sem er svo hægvirkt að ég get ómögulega horft á heilt myndband án þess að það hökti 10 sinnum.

Má ég koma með tillögu til RÚV um hvernig þeir geti lagað þetta?

Hættiði með eigin kerfi og vinnið þetta bara með Youtube. Setjið Silfur Egils og Kastljós þætti þar strax að lokinni útsendingu. Youtube myndbönd er hægt að hafa í frábærum gæðum og það sem er mikilvægast – þau virka alls staðar. Í öllum tölvum, öllum vöfrum og á öllum farsímum. Það er jú árið 2010 og stór hluti netnotkunnar fólks er á farsímum. RÚV gæti verið með sér stöð innan Youtube og það myndi ekki kosta það neitt að vera með sín myndbönd þar (ólíkt því að hýsa þau á eigin server með einhverju Windows Media Player dóti).

Þannig að þessi lausn myndi spara RÚV umtalsverða peninga og gera myndböndin aðgengileg öllum. Af hverju ekki?