Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess

Þá er komið að því að við Margrét ætlum á langt ferðalag á ný. Ég tók mér nánast ekkert frí á síðasta ári. Tók að ég held 5 frídaga, en restin af ferðalögunum voru öll til Íslands þar sem ég vann allan tímann. Þannig að núna eigum við inni slatta af fríi og ætlum að byrja að nýta okkur það. Margrét er í utanskóla námi á þessari önn og getur því tekið sér frí.

Hugmyndin er sú að fara til Suður-Asíu. Grunn hugmyndin er að heimsækja flest/öll þessi lönd: Indland, Nepal, Bútan og Bangladess. Við höfum annaðhvort 6 vikur eða 8 vikur – það fer aðeins eftir því hvort okkur finnst við ná öllu á þeim tíma.

Við erum búin að skoða þetta talsvert, en ég hef mikinn áhuga á að lesa reynslusögur frá fólki, sem hefur farið til þessara landa og fá þeirra hugmyndir.

Okkar grunnhugmynd var svona: Byrja í Mumbai, færa okkur svo upp til Udaipur, Jaipur, Agra (Taj Mahal), svo uppí Norð-Vestur hlutann – Amritsar, Dharamsala og svo einhvern veginn koma okkur austur til Varanasi. Koma okkur svo upp til Nepal, þar sem við myndum skoða svæðið í kringum Kathmandu. Við höfum sennilega ekki tíma fyrir lengri gönguferðir í Nepal, þannig að við látum Annanpurna bíða til betri tíma (ég er vongóður um að við munum aftur fara þangað). Svo aftur inn til Indlands og þaðan í stutta ferð til Bútan (kannski 4-5 dagar – við þyrftum þó að fljúga þangað samkvæmt því sem ég hef lesið). Þaðan í gegnum Indland inní Bangladess, þar sem við myndum skoða Dhaka og Sundabans. Síðan var hugmyndin að fljúga annaðhvort frá Kalkútta eða Dhaka yfir til vesturstrandar Indlands og eyða einhverjum tíma í Goa og Kerala.

Eftir megni viljum við forðast stórborgir, nema þær sem hafa eitthvað spennandi uppá að bjóða.

Það eru nokkrar spurningar í þessu, sem við erum að velta fyrir okkur.

1. Ættum við að fara til Norð-Vestur Indlands? Ég veit að sumir hlutar þar eru ófærir á þessum tíma árs – við verðum í mars (t.d. Leh, Dal vatnið í Kasmír og svo framvegis) Það tæki talsverðan tíma, en ég veit ekki hvort það sé þess virði. Maður þyrfti kannski að blanda inn heimsókn til Pakistan, sem ég er óviss um að sé sniðugt. Semsagt, eigum við að heimsækja eitthvað fyrir norðan Delhi?
2. Ég tel bara upp helstu borgirnar og túristastaðina, en ef einhver veit um góða staði á milli (við munum sennilega taka mun þéttara plan – ekki bara þessi higlight), þá er það frábært.
3. Hefur einhver reynslu af Bútan?
4. Erum við að sleppa einhverju augljósu? Ég veit að maður gleymir alltaf einhverju þegar maður byrjar að skipuleggja og plön breytast þegar maður kemur á staðinn.
5. Er þetta of þétt plan miðað við tíma?