iPhone forrit, sem ég nota

Ég hef lengi ætlað að skrifa smá um þau forrit, sem ég nota á iPhone símanum mínum.

iPhone er auðvitað stórkostlegasta tæki veraldarsögunnar. Ég gæti ekki lifað án þessa síma. Allavegana, ég ætlaði að taka saman þau forrit, sem ég er með á tveimur fremstu skjáunum mínum (eiginlega allt sem ég nota). Ég nenni ekki að finna til linka, en það ætti að vera auðvelt að google-a öll þessi forrit, eða að finna þau með leit í App Store.

Á fyrstu síðunni er slatti af Apple forritum sem allir, sem eiga iPhone, eiga. Þarna er auvitað sms forritið, klukka, myndavél, Google maps, reiknivél, dagatal og Apple remote, sem ég nota til að stjórna Apple TV og tölvunni minni heima.

(smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu).

Einnig eru þarna **Skype**, **Facebook** og **Twitter**, sem að allir ættu að þekkja. Skype forritið er snilld og ég nota það mikið. Facebook forritið er í lagi og Twitter forritið er mjög gott og ég nota það mikið. Ég hef prófað að nota önnur Twitter forrit, en enda alltaf í þessu.

**OmniFocus** er mikilvægasta forritið í mínu lífi. Allt, sem ég geri í vinnunni, byrjar sem færsla í OmniFocus. Forritið á iPhone er verulega gott. Það syncar við Mac forritið mitt og í þessu forriti skrifa ég (eða tala inn) allar hugmyndir, sem ég fæ.

**Evernote** nota ég til að halda utanum öll skjölin mín. Þar safna ég saman úrklippum, skönnuðum skjölum og minnispunktum. Syncar líka við Evernote á tölvunni minni.

**Translator** forritið tengist Google Translate og ég nota það til að þýða sænsk orð.

**Podcaster** er nokkuð nýtt þarna. Ég hlusta mikið á podcast þætti. Allt frá kvöldfréttum á RÚV til morgunfrétta hjá Svenska Radio og bandarískra þátta. Ég notaði áður Podcast fídusinn í iTunes, en var orðinn þreyttur á að þurfa alltaf að tengja símann við tölvuna til að fá nýja þætti. Podcaster tékkar á nýjum þáttum á ákveðnum tímum og hleður þeim niður á símann. Forritið er ekki fullkomið, en það er margfalt þægilegra en iTunes lausnin.

**Reeder** er svo langsamlega besta RSS forritið á iPhone. Ég hef prófað þau mörg, en Reeder ber af. Ég nota það til að fylgjast með öllum bloggum, sem ég les.

Á næstu síðu eru forrit, sem ég nota aðeins minna.

**Instapaper** er snilld – bæði á iPhone og iPad. Með því forriti getur maður vistað texta á vefsíðum og lesið þær eftir hentugleika á símanum eða iPad. Ég les nánast allar lengri greinar á netinu í Instapaper.

**Tada** notum við Margrét til að halda utanum innkaupalista fyrir matarinnkaup.

Svo eru þarna möppur með Serrano tenglum og tölvuleikjum. Af leikjunum get ég mælt með Astronut *(sic)*, The Incident, Doodle Jump, Plants vs Zombies og Angry Birds. Það eru allt leikir, sem ég hef elskað.

**1Password** nota ég til að halda utanum öll mín lykilorð og viðkvæmar upplýsingar bæði á tölvunni minni og símanum.

**ScoreCenter** frá ESPN nota ég til að fylgjast með stöðunni í fótbolta og NBA.

**Convert** nota ég til að reikna út gengi, þyngdir og slíkt. **Dropbox** og Notes þarf svo sem ekki að kynna.

**Gowalla** nota ég af einhverjum furðulegum ástæðum. Ekki spyrja mig af hverju.

**Yr.no** er betra veðurforrit en Apple veður forritið. **WOD** nota ég til að skrá CrossFit árangurinn minn.

**Screens** er frábært VNC forrit, sem ég get notað til að stýra tölvunni minni úr símanum. Og að síðustu er það **Momento**, sem tekur twitter statusana mína, Facebook statusana mína, Gowalla tékk-inn og aðra punkta, sem ég set inn og býr til nokkurs konar dagbók. Mjög sniðugt.

Þetta er það sem ég nota langmest á símanum. Af forritum, sem ég nota minna þá get ég mælt með **Runkeeper** (ég er ekki að hlaupa úti núna, þannig að það er ekki á fremstu síðunum) sem er algjörlega frábært forrit til að halda utanum hlaup eða hjólaferðir).

Ef þið eruð með einhverjar sniðugar tillögur að öðrum forritum, sem ég á að kíkja á, þá endilega setjið inn komment