Ég segi JÁ við Icesave

Icesave kosningarnar eru næsta laugardag á Íslandi og þótt að ég sé á gistiheimili í Bangladess, þá hef ég samt hugsað mikið um málið síðustu daga.

Ég segi JÁ við Icesave og ég hvet þig til að gera það líka. Ef þú ert vinur minn, fjölskyldumeðlimur eða tekur eitthvað mark á því sem ég segi, þá bið ég þig um að lesa þennan pistil og mæta svo á kjörstað og segja JÁ við Icesave samningunum.

Ég tel að það séu nokkrar stóra ástæður fyrir því að segja JÁ við Icesave samningunum, en ég ætla bara að fara yfir þær helstu, sem koma líka inná mína reynslu frá síðustu árum þegar ég hef reynt að vinna að uppgangi og vexti íslensks fyrirtækis í útlöndum.

* * *

 1. Kostnaður: Ég tel að kostnaður við Nei geti orðið miklu hærri en kostnaður við að samþykkja samningana. Ef við segjum Já, þá segir samninganefndin að kostnaðurinn sé líklega um 32 milljarðar. Ef við segjum Nei, þá getur beinn kostnaður mögulega orðið núll, en meiri líkur eru á því að hann geti orðið umtalsvert hærri en 32 milljarðar. Og þá er ótalinn óbeinn kostnaður við Nei-ið.

  Tryggvi Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að eingöngu kostnaður vegna lægri lánshæfiseinkunnar ríkisins ef að við segjum Nei við Icesave verði 27-43 milljarðar á ári. Eða 135-216 milljarðar á næstu 5 árum. Þetta er vegna þess að vaxtakostnaður ríkissins mun hækka gríðarlega ef við segjum Nei við Icesave. Ef við segjum nei, þá er eðlilegt að lánsmatsfyrirtæki líti svo á að það séu minni líkur á að lánadrottnar Íslands fái borgaðar skuldir frá landinu (þar sem við erum þá að hlaupast á brott frá því að borga Icesave, sem við höfum áður sagst ætla að borga). Það þýðir verra lánshæfismat og gríðarlega aukningu á vaxtakostnaði íslenska ríkisins.

  Ég tel því nánast öruggt að kostnaður við Nei verði hærri í krónum talið en kostnaður við Já. Miklu hærri. Jafnvel þótt að við myndum eftir einhver ár vinna dómsmálið þá væri kostnaðurinn vegna lækkaðs lánshæfismats ríkisins svo gríðarlegur að sigur í því máli yrði lítið gleðiefni.

 2. Orðspor: Ég tel að Nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu muni hafa neikvæð áhrif á orðspor okkar Íslendinga. Tvær ríkisstjórnir (og forsetinn okkar líka) hafa sagt að við munum borga Icesave reikningana og að deilurnar hafi staðið um hvernig þeir yrðu borgaðir. Ef að þjóðin segir núna að þrátt fyrir öll þau loforð að við ætlum svo ekki að borga þá tel ég að það muni hafa mjög neikvæð áhrif á orðspor okkar allra í viðskiptum. Sú neikvæðni er eitthvað, sem gæti fylgt okkur lengi.

  Í viðskiptum er orðspor þitt gríðarlega mikils virði. Það þarf enginn að segja mér annað en að það sé miklu erfiðara fyrir heiðarlegan Litháa eða Nígeríumann að stunda viðskipti heldur en heiðarlegan Þjóðverja. Jafnvel þótt að þessir þrír einstaklingar séu alveg eins, þá mun þjóðerni þeirra alltaf kveikja upp ákveðna fordóma hjá fólki. Ef við neitum núna að borga eftir að hafa lofað að borga þá tel ég að slíkt hið sama gæti gerst fyrir okkur.

  Ég á og rek íslenskt fyrirtæki í útlöndum og ég vil geta gert það áfram með stolti. Ég vil ekki þurfa að hlusta á brandara um að Íslendingar borgi ekki sína reikninga eða að mæta fordómum vegna þess hvaðan ég kem. Nei, ég vil geta stundað viðskipti á mínum eigin verðleikum og vera stoltur af því hvaðan ég og mitt fyrirtæki erum.

 3. Gjaldeyrishöftin: Seðlabankastjóri hefur sagt að Nei við Icesave muni þýða að gjaldeyrishöftin verði við lýði enn lengur en ef við samþykkjum samninginn.

  Síðustu 3 ár hef ég rekið fyrirtæki, sem hefur þurft að glíma við þessi gjaldeyrishöft. Það er ekki gaman og það er ekki beint traustvekjandi þegar að maður þarf að nota gjaldeyrishöftin sem afsökun fyrir seinagangi í viðskiptum í Svíþjóð.

  Ég efa það ekki að önnur íslensk fyrirtæki lenda mun oftar í vandræðum vegna haftanna, þar sem að okkar fyrirtæki þarf ekki að standa í millifærslum á hverjum degi. Og ég er líka fullviss um að þessi fyrirtæki koma ekki í fjölmiðlum á hverjum degi og kvarta yfir höftunum, heldur reyna að taka á sínum vandamálum innan síns fyrirtækis.

  Ef við ætlum að ná okkur útúr þessari kreppu almennilega þá verðum við að gera það með viðskiptahugmyndum, sem gera útá viðskipti við útlönd. Gjaldeyrishöftin munu alltaf vera letjandi á ný fyrirtæki og nýjar hugmyndir. Það hefur sennilega enginn reiknað hversu mikið gjaldeyrishöftin kosta okkur í töpuðum viðskiptatækifærum fyrir íslensk fyrirtæki – en ég er viss um að það eru miklir peningar. JÁ við Icesave mun skv. Seðlabankanum gera okkur auðveldara að létta gjaldeyrishöftunum og því tel ég að JÁ við Icesave-samningunum sé rétt val.

* * *

Helstu rök Nei sinna, sem ég hef lesið á Facebook, eru þau að fólk vilji ekki borga skuldir óreiðumanna eða einkafyrirtækja. Það er allt gott og vel. En málið er einfaldlega að bankar eru ekki einsog hver önnur fyrirtæki. Landsbankinn tók við peningum Hollendinga og Englendinga og innistæður þessa fólks áttu að vera varðar af Tryggingasjóði okkar, alveg einsog innistæður okkar Íslendinga. Gleymum því ekki að íslenska ríkið ábyrgðist að öllu leyti innistæður Íslendinga í íslensku bönkunum.

Ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki íslands gerðu fjölmörg mistök í aðdraganda hrunsins. Auðvitað átti að færa Icesave til Landsbankans í Bretlandi, en það var ekki gert. Og í lýðræðisríki einsog okkar þá berum við ábyrgð á klúðri okkar ríkisstjórnar.

Fólk bendir á að stærstu eigendur Landsbankans eigi að borga skuldina. En Landsbankinn var hlutafélag og ábyrgð eigenda hlutafélaga er alltaf takmörkuð. Ef við ætlum að breyta því þá yrðum við líka að breyta því fyrir öll hlutafélög á Íslandi. Það myndi þýða að í framtíðinni myndi enginn þora að stofna fyrirtæki á Íslandi.

Og Landsbankinn var ekki bara í eigu Björgúlfanna (annar þeirra eru jú gjaldþrota og því ekkert að sækja í hans bú) – því stór hluti Íslendinga átti hlut í bankanum. Ég átti hlutabréf í Landsbankanum í gegnum vísitölu sjóði og ég geri ráð fyrir að ansi margir hafi átt hlutabréf í Landsbankanum í gegnum sína lífeyrissjóði. Ef Björgúlfarnir eiga að borga þá ættum við hinir hluthafarnir að gera það líka. Við töpuðum öllu því sem við höfðum borgað fyrir hlutabréf í Landsbankanum. Ef að það ætti að gera hluthafa ábyrga fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækja þá mun einfaldlega enginn kaupa hlutabréf.

Og hvað ef við segjum NEI við Icesave? Heldur virkilega einhver að Björgólfur Thor muni þurfa að borga eitthvað meira? Nei, auðvitað ekki. Í dómsmáli mun annaðhvort íslenska ríkið þurfa að borga – eða (ef svo ólíklega fer að við myndum vinna málið) almenningur í Bretlandi og Hollandi. Nei við Icesave skiptir Björgólf Thor engu máli.

* * *

Við fengum lán frá Norðurlandaþjóðunum og frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum vegna þess að við lofuðum að semja um Icesave málið. Hverslags hegðun er það þá að koma núna og segja “Nei, djók, við ætluðum ekkert að semja – við viljum að þetta fari til dómstóla”? Hver tekur mark á slíkri þjóð?

Hversu mikils virði er það að þykjast vera sjálfstæð og þenja sig út með fullyrðingum um fullveldi og sjálfstæði ef að engar aðrar þjóðar taka mark á okkur?

Einsog Ellert B. Schram skrifar í blaðagrein:

Veruleikinn er hins vegar sá að sjálfstæði og fullveldi hverrar þjóðar byggist á samvinnu við aðrar þjóðir, lánafyrirgreiðslum, viðskiptum, gjaldeyristekjum og orðspori.

* * *

Ég er orðinn þreyttur á Icesave. Ég er orðinn þreyttur á að rífast um þetta mál við vini og fjölskyldumeðlimi. Annars frábært steggjapartí hjá vini mínum snérist uppí rifrildi um Icesave. Hversu sorglegt er það?

En ég er ekki að biðja fólk um að segja Já við Icesave bara af því að ég er svona þreyttur. Nei, ég tel einfaldlega að JÁ við Icesave sé langbesti kosturinn fyrir Íslendinga.

Munið að þessi kosning á laugardaginn snýst ekki um hægri og vinstri. Þetta er ekki tækifæri til að klekkja á ríkisstjórninni eða Samfylkingunni eða VG eða Bjarna Ben. Það verður fólk að muna. Kosningarnar snúast ekki um Davíð eða Björgólf eða Jón Ásgeir eða Jóhönnu eða Steingrím. Björgólfur Thor mun ekkert þurfa að borga aukalega ef við segjum Nei. Nei á laugardaginn er ekki tækifæri til að klekkja á honum. Kosningarnar snúast ekki um þá, heldur hagsmuni allrar þjóðarinnar.

Ég segi Já við Icesave samningunum og ég bið þig um að gera það líka. Æstustu NEI sinnarnir munu mæta á kjörstað og því er það gríðarlega mikilvægt að við hin mætum líka á kjörstað og veljum JÁ.

Ég tel yfirgnæfandi líkur á að kostnaðurinn við JÁ verði miklu lægri en kostnaðurinn við NEI og ég tel að JÁ muni hjálpa til við að bæta orðspor Íslendinga. Orðspor okkar er jú eitt það mikilvægasta, sem við höfum. Þess vegna kýs ég JÁ.

Þetta var skrifað í Khulna, Bangladess síðasta laugardag